Þriðjudagskvöldið 29. október mættu 41 Fókusfélagi á myndvinnslukvöld þar sem kynnt voru tvö myndvinnsluforrit sem hafa verið að ryðja sér til rúms undanfarið, DxO og CaptureOne.
Sýning 2025
Fundurinn hófst á því að sýningarnefnd fór yfir ýmis atriði tengd komandi sýningu okkar í vor, ræddi þemað, kynnti sýningarstjóra, sýningarsal, fór yfir skil á myndum og hvernig frágangi mynda verður háttað.
Félagar hafa fengið þessar upplýsingar sendar í tölvupósti og geta kynnt sér þær enn frekar þar. Við hvetjum alla félaga til þess að taka þátt í þessum stórskemmtilega viðburði.
DxO
Því næst vann Gissur nokkrar myndir í forrit sem heitir DxO og hefur vakið talsverða athygli undanfarið.
Hann sýndi m.a. fram á það hversu vel hugbúnaðurinn getur minnkað noise í myndum sem teknar eru á háu ISO, litgreiningu og flest það sem gert er í hefðbundinni myndvinnslu.
Capture One
Kiddi sýndi fundargestum síðan aðeins hvernig hann vinnur myndir í Capture One með aðaláherslu á það hversu hratt forritið vinnur, miðað við það forrit sem flestir félagar nota í dag, Adobe Lightroom.
Líkt og í öðrum forritum eru litgreining, stilling á ljósi og skuggum, contrast og slíku hluti af vinnuferlinu og það var áhugavert að sjá hversu margt er líkt með þessum forritum, þótt þau séu líka um margt ólík.
Eftir þessa kynningu voru fundargestir ýmsu nær um kosti og galla þess hugbúnaðar sem hægt er að nota í myndvinnslu í dag. Sum þessara forrita eru hraðvirkari en önnur, sum eru betri í að eyða noise, sum halda betur utan um myndasafnið o.s.frv. og kostnaðurinn við þau er mismunandi.
Við þökkum Gissuri og Kidda kærlega fyrir vandaða yfirferð og Báru fyrir skýra og góða kynningu á sýningunni.
Viltu vera með?
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í fundum eins og þessum hvetjum við þig til þess að skrá þig í félagið.
Í félaginu er fólk á öllum aldri með mismunandi áherslur, stíl og smekk. Nú er rétti tíminn til þess að hitta annað áhugafólk og læra meira um ljósmyndun.
Næstu viðburðir eru 12. nóvember þegar fjallað verður um innahússljósmyndun og ljósmyndun á akstursíþróttaviðburðum. Framundan eru síðan dagsferð og jólabingó. Sjá dagskrá.