Tveggja turna tal – frábær fyrirlestravika

Í þessari viku voru haldnir tveir mjög áhugaverðir fyrirlestrar fyrir félaga í Fókus. Mánudagskvöldið 24. mars kom Morten Rygaard, heimsþekktur tónleika- og portrettljósmyndari til okkar og sagði okkur frá verkum sínum og vinnu. Þriðjudagskvöldið 25. mars kom síðan meistari Spessi og sagði okkur frá ferli sínum og nálgun í listrænni ljósmyndun.

Frásögn Mortens var sérlega lifandi og skemmtileg. Hann sagði frá ýmiss konar tónleikum með heimsfrægum tónlistarmönnum og deildi með okkur alls kyns tækni sem hann notar í sinni nálgun. Mynd: Ósk Ebenesersdóttir.

Fundurinn á mánudagskvöldið var í boði Ofar og Sony en Morten er staddur hér landi til að hitta fjölda ljósmyndara og segja frá vinnu sinni.

Ofar var með ljósmyndabúnað frá Sony sem félagar fengu að prófa. Mynd: Ósk Ebenesersdóttir.

Það var virkilega gaman að heyra hvernig Morten nálgast ljósmyndun á tónlistarviðburðum og mörg þeirra ráða sem hann gaf okkur eiga eftir að nýtast félögum sem taka að sér slík verkefni.

Þriðjudagskvöldið 25. mars var síðan einn af fjölmennari fundum Fókus, þar sem 46 félagar mættu og hlustuðu á Spessa segja frá ferli sínum og nálgun í ljósmyndun.

Spessi sagði okkur frá ferlinum í máli og myndum. Lífleg, skemmtileg og fræðandi frásögn frá einum okkar allra bestu ljósmyndurum. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson

Ferill Spessa spannar langan tíma og fjölbreytt verkefni, allt frá auglýsingavinnu yfir í jólakortagerð og listræn verkefni. Frásögn Spessa var sérlega lifandi og skemmtileg og mikið hlegið.

Kátir Fókusfélagar á kvöldfundi. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson

Fókus er ákaflega þakklátt gestum sínum, Ofar og Sony fyrir frábæra fyrirlestraviku. Félagar eru vonandi innblásnir og á fullu með myndavélarnar sínar að fanga viðburði daglegs lífs.

Ef þig langar að komast í skemmtilegan félagsskap áhugafólks um ljósmyndun og komast á áhugaverða fyrirlestra eins og þennan, er hægt að skrá sig til leiks hér á vefnum.