Þriðjudagskvöldið 6. desember fór fram jólafundur Fókus. Dagskráin var einföld eins og venjan er á jólafundum. Að þessu sinni var haldið bingó, þar sem félagsmenn gátu unnið vinninga frá Reykjavík Foto. Að loknu bingói nutu félagar samverunnar með veitingum og ljósmyndatengdu spjalli.
Ólar, töskur, vettlingar, flass og þrífótur voru meðal glæsilegra vinninga sem skiptust á milli heppinna félaga. Fókus þakkar Reykjavík Foto kærlega fyrir veittan stuðning.
Á fundinum voru líka til sýnis glæný stúdíóljós sem skráðir félagar í Fókus geta fengið lánuð. Þannig geta félagar æft sig í alls kyns myndatökum, hvort sem það eru portrett, vörumyndir eða hvað sem þeim dettur í hug. Nánara fyrirkomulag á útláninu á ljósum verður sent fljótlega í pósti til félaga.
Að auki var minnt á að næstkomandi þriðjudagskvöld verður síðasta kvöldrölt ársins. Nánari upplýsingar um tíma og staðsetningu hafa verið sendar félögum í tölvupósti.
Hér koma nokkrar svipmyndir frá virkilega skemmtilegum og notalegum jólafundi.
Starfið hefst svo aftur eftir jólafrí með opnu húsi þann 10. janúar. Framundan eru m.a. sýning Fókusfélaga, vinna við árbók, áhugaverðir fyrirlestrar frá ljósmyndurum, kvöldrölt og ferðir.
Skráðu þig í Fókus ef þig langar til þess að komast í skapandi og skemmtilegan félagsskap áhugaljósmyndara og taka þátt í starfseminni.
Á spjallinu okkar geturðu svo meðal annars fylgst með umræðum og séð myndir úr ferðum félagsins.