Opinn kynningarfundur 21. janúar

Fókus – félag áhugaljósmyndara heldur opinn kynningarfund þriðjudaginn 21. janúar nk. og eru allir velkomnir.

Fundurinn verður haldinn í aðstöðu félagsins, Kelduskóla Korpu, Bakkastöðum 2, Grafarvogi. Fundurinn stendur frá 20.00 til 22.00

Fyrir hlé mun Arngrímur, formaður, kynna félagið og starfsemina. Að því loknu mun Kristján U. Kristjánsson hafa kynningu/sýnikennslu á vinnslu nokkurra mynda í myndvinnsluforritinu Adobe Lightroom.
Þeir sem vilja kynna sér starfið eru velkomnir og hvattir til að mæta og eiga kvöldstund í hóp áhugasamra ljósmyndara.

Fyrsta Fókusferð ársins 2020

Við Fókusfélagar áttum ljómandi góða ljósmyndaferð í dag þrátt fyrir afleita veðurspá. En það fiskaðist þokkalega í þessari ferð þrátt fyrir allt sem sýnir manni bara að taka aldrei neinu sem gefnu. Það má sjá mun fleiri myndir úr ferðinni inni á nýja spjallinu okkar og viljum við hvetja alla til að skrá sig hvort sem þeir ætla sér að ganga í félagið eða ekki. Spjallið er öllum opið og allir sannarlega velkomnir.

Gleðilega hátíð

Jólafundi lauk þriðjudaginn 17. desember með glæsibrag þar sem 45 viðstaddir höfðu flestir tekið á móti bæði nýrri Árbók Fókus sem og glæsilegri Patagonia útivistarúlpu frá Fjallakofanum sem Fókusfélögum bauðst að fá á frábæru verði fyrir tilstilli styrktaraðila, og þökkum við Árbókarnefnd og Hirti Stefánssyni sem gerði úlpuna að veruleika, kærlega fyrir. Á jólafundinum var einnig ný heimasíða kynnt og nýtt spjall opnað formlega, en rífandi gangur hefur verið á spjallinu frá opnun og mælum við að þeir skrái sig sem eiga það eftir og taki þátt í umræðum um ljósmyndir og ljósmyndun. Að lokum viljum við þakka undirbúningsnefndinni sem stóð að jólafundinum og fyrir allar þær kræsingar sem voru í boði. Meðlimir geta séð ítarlegri fundargerð hér, en til þess að geta lesið fundargerðina þarf viðkomandi að vera skráður Fókusfélagi á spjallinu.

Stjórn Fókus óskar félagsmönnum gleðilegrar hátíðar og þakkar fyrir samveru á liðnu ári. Við vonum að allir njóti hátíðarinnar og eigi góðar samverustundir með fjölskyldu, vinum og jafnvel myndavélum.

Ekki gleyma að kíkja á spjallið.

Árbók Fókus 2019

Nú er Árbók Fókus 2019 loksins að komast í hendur meðlima félagsins á árlegum jólafundi félagsins. Þessi bók markar 20 ára afmæli félagsins og hafa aldrei eins margir meðlimir tekið þátt, eða 45 talsins. Bókin þykir einkar glæsileg að þessu sinni og breytt var út af ýmsum venjum, til dæmis fær nú hver ljósmyndari heila opnu fyrir myndirnar sínar. Við hlökkum til útgáfu 2020 bókarinnar og vonumst til að sjá sem flesta.

Stjórn Fókus þakkar kærlega fyrir samstarfið á liðnu ári.

Gleðilega hátíð.

Jólarölt Fókusfélagsins 2019

13 góðir Fókusfélagar hittust á hinu árlega jólakvöldrölti Fókusfélagsins. Það skiptir engu máli hversu margir hittast í ljósmyndaferð, myndirnar eru alltaf jafn ólíkar eins og augun eru mörg. Kvöldið endaði á þægilegu kaffihúsaspjalli. Myndir frá kvöldinu má sjá inni á svæði Fókusfélaga á spjallinu okkar.

Ljósmynd: Þorkell Sigvaldason

Ný vefsíða lítur dagsins ljós

Í dag er 30. nóvember 2019 og ný vefsíða Fókusfélagsins laumar sér inn á veraldarvefinn. Hún er tæknilega komin í loftið en þó ekki formlega – enn á eftir að yfirfara hana hressilega og gæta þess að allt sé eins og það eigi að vera, en fljótlega verður vefurinn kynntur fyrir félagsmönnum á kvöldfundi og farið yfir ýmis atriði.

Tilgangur vefsíðunnar verður fyrst og fremst til þess að upplýsa fólk um tilgang félagsins, starfsemi þess og gefa fólki kleift að gerast meðlimir í félaginu.

Í öðru lagi verður starfrækt á vefnum öflugt spjallborð þar sem allir geta tekið þátt í líflegum umræðum tengdum ljósmyndum og birt myndir sínar.