Ætlar þú að mynda gosið?

Sumir segja að það sé fátt sem toppi eldgos þegar kemur að landslagsljósmyndun. Ég er alveg í þeim hópi og þegar fregnir bárust af eldgosi í bakgarði höfuðborgarsvæðisins fór um mig fiðringur og á sunnudag gekk ég að gosstöðvunum og naut þar náttúrundurs sem ég mun seint gleyma.

Séð yfir gíginn í Geldingadal. (Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson)

Það eru eflaust margir Fókusfélagar sem hugsa sér gott til glóðarinnar (í orðsins fyllstu merkingu) og vilja gera sér ferð að gosstöðvunum eins og þúsundir Íslendinga hafa þegar gert.

Undirbúningur er lykilatriði

Eins og komið hefur margoft fram í fjölmiðlum er þetta eldgos lítið en getur verið hættulegt. Áður en þið ákveðið að leggja í hann eru nokkur atriði sem er nauðsynlegt að hafa í huga og vera meðvitaður um helstu hættur sem slíkt ferðalag getur haft í för með sér:

  • örmögnun og ofkæling
  • að villast
  •  gaseitrun
  • skyndilegt hraunflæði

Búnaður

Til þess að forðast þessar hættur er mikilvægt að vera vel undirbúinn og sýna af sér ábyrga hegðun þegar á gosstöðvarnar er komið.

Það má ekki taka því af léttúð að gosið er staðsett í óbyggðum og þangað er töluvert löng gönguleið. Ef gengið er frá austasta hluta Grindavíkur má gera ráð fyrir því að gangan geti verið um 20km í heildina og taki 6-8 klst, eftir því hversu lengi er stoppað við gosið sjálft. Það segir sig þess vegna sjálft að allir sem ætla að fara þurfa að búa sig vel og vera við öllu búnir, hvort sem kemur að búnaði eða orkuríku nesti.

Ferðafélag Íslands hefur birt frábæran útbúnaðarlista sem allir ættu að nýta sér áður en lagt er af stað. Listann má nálgast hér: https://www.fi.is/is/frettir/bunadur-fyrir-gosskodunarferd

Veðurspá

Fréttaflutningur af ferðalöngum í vandræðum við gosið ætti að vera okkur áminning um að veður á Fagradalsfjalli getur breyst hratt. Veðurstofa Íslands flytur ítarlegar fréttir af veðri og birtir veðurspár sem allir ættu að kynna sér. Það er mikilvægt að muna að veðurspár geta breyst og að skoða alltaf ítarlega veðurspá rétt áður en lagt er af stað.

Eins þversagnarkennt og það er þá liggja veðurhætturnar í annars vegar miklu roki og hins vegar í mjög hægum vindi. Í miklu roki getur vindkæling verið mikið og ef við það bætist úrkoma eykst hættan á ofkælingu ef fólk er ekki í vatns- og vindheldum fatnaði.

Í hægviðri er hins vegar hætta á því að eitraðar gastegundir sem eru þyngri en andrúmsloftið safnist fyrir í dældum og lægðum í landslaginu.

Hér sést hvernig bláa móðuna leggur undan vindi frá gígnum í Geldingadal. (Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson)

Hættur af gosinu

Eitraðar gastegundir eru einmitt ein af þeim hættum sem þarf að varast í nágrenni við eldgos, sérstaklega í hæglátu veðri. Ef vindur er lítill er mikilvægt að sneiða hjá lægðum í landslagi og halda sig ofarlega í hlíðum.  Þegar vindur blæs er mikilvægt að standa vindmegin við gosið og halda sig frá gosmekkinum.

Önnur hætta sem ber að varast er óútreiknanleg hegðun hraunsins. Gígveggirnir og hraunkanturinn eru úr bráðinni kviku sem er mjög óstöðug. Ef brestir koma í gíg eða hraunkant getur glóandi heitt hraunið runnið mjög hratt fram og farvegir þess breyst.

Hraunið hefur mikið aðdráttarafl og þegar komið er á staðinn er auðvelt að gleyma sér og fara allt of nálægt. Hér sést vel glóandi hraunbráð í jaðrinum sem gæti mögulega hrokkið af stað. (Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson)

Það er þess vegna mjög mikilvægt að standa ekki nálægt gígnum eða hraunjaðrinum og huga alltaf að mögulegri flóttaleið ef hraunið fer af stað.

Að þessu sögðu….

Eins og fram kom í upphafi þá eru eldgos stórkostlegt myndefni og þeir sem eru vanir útivist, löngum dagsgöngum og vel útbúnir ættu vel að geta heimsótt þessar gosstöðvar þegar skilyrðin eru rétt. 

Sú leið sem flestir fara er að ganga frá lokun á Suðurstrandavegi, eftir veginum upp með Festarfjalli. Þegar þú ferð að nálgast Borgarfjall er hægt að ganga yfir hraunið, að fjallinu og svo meðfram því. Síðan þarf að ganga nokkuð brattan sneiðing í lausri möl til þess að komast upp á Fagradalsfjallið. Þegar þangað er komið er gengið til norð-norð-austur þar til Geldingadalur opnast og gosið fer að sjást. 

En nú virðist sem það eigi að stika leiðina upp að gosi og útbúa bílastæði nær staðnum þar sem lagt er af stað í átt að gosinu. Það styttir verulega gönguna en breytir ekki því að fólk fer á eigin ábyrgð og þarf að vera vel undirbúið.

Uppfært 23.3: Búið er að stika gönguleiðina frá Borgarfjalli og alla leið að gosstöðvunum. Vegalengdin ræðst núna helst af því hversu nálægt upphafi gönguleiðarinnar þú nærð að leggja, en hún hefur styst verulega frá því sem var.

Ljósmyndunin

Það er gaman að mynda eldgos í ljósaskiptunum og þá þarf að muna að lýsa myndirnar þannig að björtustu svæðin verði ekki yfirýst, því það er ekki hægt að bjarga þeim í eftirvinnslunni.

Ekki vanmeta bokeh í landslagsljósmyndun þegar þig langar að draga athyglina að ákveðnum atriðum. (Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson)

Ég tók nánast allar mínar myndir á 70-200 linsu þannig að ég gæti haldið mig í þokkalegri fjarlægð. Þar sem ég var á ferðinni í dagsbirtu skellti ég 5 stoppa ND filter á til þess að geta tekið á lengri tíma.

Það er sennilega betra að bíða fram í ljósaskiptin til að fá minni birtu, líka til þess að fá betri kontrast á móti himninum í hraunslettunum, þegar á að taka á lengri tíma. (Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson)

Ég notaði hana líka til þess að leika mér að því að taka nærmyndir af öllum þeim stórbrotnu abstrakt mótívum sem nýrunnið hraun og glóandi hraunstraumarnir búa til. 

Smáatriðin geta verið alveg jafn stórfengleg og gígurinn sjálfur. Prófaðu að gefa þeim gaum. (Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson)

Ef þú ákveður að heimsækja gosið skaltu undirbúa þig vel, vanmeta ekki aðstæðurnar og muna að það er betra að bera aukanesti og aukaföt ónotuð í bakpokanum en að lenda í örmögnun eða ofkælingu.