„Við almyrkva breytist allt“ – Sævar Helgi og himingeimurinn

Það var nánast fullt á félagsfundi þriðjudagskvöldið 27. janúar þegar 58 Fókusfélagar mættu og hlýddu á mjög fróðlegt erindi Sævars Helga Bragasonar um komandi almyrkva á sólu.

Sævar sagði okkur frá því hverju búast má við þann 12. ágúst næstkomandi þegar almyrkvi á sólu verður sýnilegur á hluta Vesturlands. Hann talar af mikilli reynslu, hefur upplifað fjöldann allan af almyrkvum, tekið af þeim ljósmyndir og myndbönd. Ástríða Sævars er mjög smitandi og sennilega erfitt að finna fyrirlesara sem geta rætt um málefnið af þvílíkri þekkingu og áhuga.

Fjölmennasti fundur í sögu Fókus, enda umfjöllunarefnið ákaflega spennandi. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson

Það er krefjandi verkefni að ná góðum myndum af þessum viðburði og eins gott fyrir ljósmyndara að vanda til verka, enda verður næsti almykrvi á sólu hér á Íslandi ekki fyrr en árið 2196.

Hápunktur almyrkvans er þegar kóróna sólarinnar verður sýnileg. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson

Sævar sagði okkur hvernig hann hefur náð þeim myndum af almyrkva sem hann á og marga fundargesti var sennilega farið að klæja í fingurna að hefja undirbúning að ljósmyndun á þessu sjónarspili.

Fókusfélagar tryggja sér sólmyrkvagleraugu og sólarsíur á linsur hjá Sævari. Mynd: Kristján U. Kristjánsson

Þó svo að langt sé í almyrkvann er vissara að byrja að velta því fyrir sér hvernig sé best að upplifa hann. Það er ljóst að það verður gríðarlegur fjöldi fólks sem mun streyma á þá staði sem best er að fara á og vissara að gefa sér góðan tíma til að komast á þann stað sem mann langar mest að vera á.

Fókusfélagar velta fyrir sér hvar verði best að vera þegar almyrkvinn nær hámarki. Mynd: Kristján U. Kristjánsson. (Athugið að þetta er ekki Sævar Helgi á myndinni.)

Sævar tók einnig smá snúning á norðurljósaspám og hvernig sé best að túlka þær til að geta mögulega myndað þau við góðar aðstæður. Þar kom margt fróðlegt fram.

Gagnlegir hlekkir

Sævar heldur úti sérstökum vef um almyrkvann: solmyrvki2026.is og að auki er vefur um norðurljósaspár, icelandatnight.is, sem rétt er að benda á.

Það var frábær stemming á þessum fundi og hér fylgja nokkrar myndir af glöðu og áhugasömu félagsfólki frá Kristjáni U. Kristjánssyni.

Við þökkum Sævari Helga kærlega fyrir komuna!

Viltu vera með?

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í skemmtilegum viðburðum eins og þessum hvetjum við þig til þess að skrá þig í félagið.

Í félaginu er fólk á öllum aldri með mismunandi áherslur, stíl og smekk. Nú er rétti tíminn til þess að hitta annað áhugafólk og læra meira um ljósmyndun.