Það hefur verið mikið líf í starfsemi Fókus undanfarnar vikur þótt ekki hafi það allt ratað á vefinn.
21. október hittust Fókusfélagar í Vatnsmýrinni og léku sér með ljós, bæði þau sem var að finna í umhverfinu og ljós sem nokkrir félagar tóku með sér.

Yfir dimmasta tíma ársins falla kvöldröltin niður og var þetta síðasta kvöldrölt ársins 2025. Það er mál þeirra sem tóku þátt að þetta hafi í senn verið fróðlegt og skemmtilegt.

Jafningjafræðsla
Þann 4. nóvember buðu nokkrir félagar upp á jafningjafræðslu þar sem félagar gátu fengið fræðslu um hitt og þetta sem snýr að ljósmyndun:
- Tvenns konar uppstillingar, annars vegar með stúdíóljósum og hins vegar með stöðugri lýsingu.
- Fræðsla um prentun mynda, litaprófíla, pappír og innrömmun.
- Notkun á filterum.
- Hvernig hægt er að gefa út ljósmyndabækur með dæmum.
- Macro myndataka.
- Notkun á fjarstýrðu flassi (off camera flash).


Það voru rétt um 40 manns sem mættu á þetta bráðskemmtilega fræðslukvöld og á Facebook hópi félagsins má sjá fjölbreyttan afrakstur fræðslunnar.
Dagsferð í Grindavík
Þann 15. nóvember fóru svo rétt um 20 félagar til Grindavíkur í dagsferð. Þetta var í senn áhugaverð og sláandi ferð og ljóst að eyðileggingin í þessari blómlegu byggð er hrikaleg.

Fólk nálgaðist myndefnið með ólíkum hætti eins og vanalega, sumir gengu meðfram skemmdum húsum og skrásettu það sem þarna hafð átt sér stað á meðan aðrir fóru um höfnina, Hópsnes og jafnvel að Svartsengi í leit að hefðbundnari myndefnum.

Hópurinn dvaldi við myndatökur í nokkrar klukkustundir og síðan dreifðist fólk talsvert um svæðið. Nokkrir félagar enduðu daginn við Selatanga þar sem sólarlagið og hóflegur öldugangur bjuggu til kjöraðstæður til þess að nýta þá þekkingu sem fékkst meðal annars í jafningjafræðslunni og draga fram filterana.

Áhugaverð og fjölbreytt dagsferð þar sem myndefnin voru á hverju strái, þótt þau hafi verið býsna ólík.
Viltu vera með?
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í skemmtilegum viðburðum eins og þessum hvetjum við þig til þess að skrá þig í félagið.
Í félaginu er fólk á öllum aldri með mismunandi áherslur, stíl og smekk. Nú er rétti tíminn til þess að hitta annað áhugafólk og læra meira um ljósmyndun.
