Canon RF 600/11 og RF 800/11

Snæfellsjökull í baksýn. Canon RF 800mm f/11 IS, ISO 400

Það er miðvikudagskvöldið 3. mars 2021 þegar þessi pistill er ritaður. Jörð hristist á suðvesturhorninu og fréttamenn bíða spenntir eftir að hoppa upp í þyrlur til þess að sjá fyrstu ummerki væntanlegs eldgos á Reykjanesi. Því er ekki seinna vænna en að klára þessa umfjöllun um tvær af nýjustu linsum Canon. Stórundarlegum og nýstárlegum linsum sem hafa aldrei sést áður frá neinum framleiðanda, en þær munu vera Canon RF 600mm f/11 IS STM og Canon RF 800mm f/11 IS STM. Ég nefni þær í samhengi við eldsumbrot því þetta eru óvenjulega langar linsur sem geta fangað landslag úr gríðarlegri fjarlægð, og það á verði sem flestir ættu að ráða við.

Canon RF 600mm f/11 IS STM til vinstri, Canon RF 800mm f/11 IS STM til hægri.

Þegar þessar tvær linsur voru fyrst kynntar til leiks sumarið 2020, þá verð ég að viðurkenna að ég var nákvæmlega ekkert spenntur. Verandi sjálfur eigandi að fjögurra kílóa skrímslinu Canon EF 500mm f/4L IS sem getur safnað sexfalt meira ljósi, þá gat ég ekki ímyndað mér að þessar linsur væru yfir höfuð nothæfar vegna f/11 ljósopsins, hvað þá á Íslandi þar sem birtan er af skornum skammti meirihlutann af árinu. Ég hugsaði bara, hvað eru Canon að spá? Jú þær eru fisléttar, jú þær kosta ekki svo mikið að maður þurfi að setja þær á raðgreiðslur, en þetta eru augljóslega fyrst og fremst fuglalinsur, og fugla þarf maður að geta fryst með háum lokarahraða, til dæmis með 1/1000 lokarahraða, sem er einn þúsundasti úr sekúndu.

Canon RF 800mm f/11 IS STM, ISO 2500

En svo bauðst mér að fá linsurnar lánaðar til prufu, og ég auðvitað stenst aldrei freistinguna á að fá að prófa nýtt dót. Það var fullt sem kom mér á óvart, og ætla ég að fara örstutt yfir það með nokkrum sýnishornum.

Canon RF 800mm f/11 IS STM, ISO 10.000

Fyrir það fyrsta, þá var ég ekki kominn með Canon EOS R6 í hendurnar þegar linsurnar voru kynntar fyrst. Það er augljóst að Canon vissu upp á hár hvað þeir voru að spá, því nýju vélarnar þeirra Canon EOS R6 og R5 eru ekki bara orðnar fullfærar um að finna fókus á dýrum og andlitum við erfiðar aðstæður, heldur er ekkert tiltökumál að mynda á mjög háu ISOi.

Canon RF 800mm f/11 IS STM, ISO 8000

Það sem gerir linsurnar svona smáar, léttar og ódýrar er f/11 ljósopið. Hingað til hefur eina Canon 800mm linsan verið Canon EF 800mm f/5.6L IS. Hún er fjórum sinnum bjartari, fjórum sinnum þyngri og fjórtán sinnum dýrari, heldur en þessi nýja Canon RF 800mm f/11 IS sem dæmi. Fyrir örfáum árum hefði Canon sennilega ekki dottið í hug að reyna þetta að koma með f/11 linsur á markað, en með nýjustu kynslóð af myndavélum þá er þetta ekkert mál. Maður er búinn að vera með það innprentað í höfuðið lengi að ISO 1600 séu efri mörkin af því sem manni þótti ásættanlegt, en nú er hægt að leyfa sér að fara mun hærra með nýjustu kynslóð af ljósmyndaskynjurum.

Canon RF 600mm f/11 IS er auðvelt að grípa í þegar hún liggur í makindum á milli sætanna í bílnum.

Stærstu kostirnir við þessar nýju linsur er auðvitað stærðin og þyngdin. Það hefur oft verið sagt að bestu græjurnar séu þær sem þú ert með á þér. Þó ég sé svo heppinn að eiga Canon EF 500/4L IS þá er ekki þar með sagt að hún fái að koma oft út að leika, það er ekkert grín að burðast með 4 kílóa linsu og alls ekki í lengri tíma. Canon RF 600mm f/11 er 930 grömm og 800mm f/11 er 1.260 grömm, það hljómar kannski þungt miðað við önnur gler sem flestir eiga, en þegar maður tekur þær upp þá eru þær kjánalega léttar miðað við stærð. Til dæmis þá er 600/11 linsan álíka stór og 70-200/2.8 linsa, en manni finnst eins og 600/11 linsan sé tóm að innan í samanburði. Ástæðan fyrir þessari smæð er auðvitað fasta f/11 ljósopið, og ástæðan fyrir þessari litlu þyngd er að það eru sárafá gler inni í þessum linsum því þau notast við svokölluð DO gler, eða Diffractive Optics. Ljósopið í þessum linsum er ekki breytilegt, það er bara eitt „Ríkisljósop“, ljósop f/11.

Canon RF 800mm f/11 IS, ISO 640
Canon RF 800mm f/11 IS, ISO 400

Ég hef gengið í heilu klukkutímana með aðra hvora linsuna hangandi utan á mér án þess að finna til. Við förum til dæmis oft að ganga með hundinn í nágrenni við Rauðavatn og þar náði ég þessum ljósmyndum hér að ofan, ég held ég hafi aldrei séð þessi mannvirki, Landspítalann og Hallgrímskirkju, frá álíka sjónarhorni.

Canon RF 800mm f/11 IS, ISO 2500

Hristivörnin í þessum linsum er ótrúleg. Hún ein og sér jafngildir 5-stoppa leiðréttingu og svo búa Canon EOS R5 og R6 myndavélarnar yfir auka 3-stoppum á skynjaranum þannig að samanlagt færðu allt að 8-stoppa hristivörn með þessum linsum. Til að setja það í auðskiljanlegra samhengi, þá jafngildir það því að geta tekið mynd á 1/20 sek, í stað 1/6000, en þó auðvitað af hreyfingarlausum hlutum því hristivörn stöðvar ekki hjartað í lifandi verum. Ég prófaði þetta eitt skiptið þegar ég var að ganga við Geldinganes, ég var með togandi ól hundarins utan um olnbogann á vinstri hönd sem hélt á síma sem ég var að tala í, þegar þessi flotti krummi settist ekki langt frá okkur, þá var ekki annað í stöðunni en að taka upp R6+800/11 settið með einni hönd og smella af. Með, einni, hönd. Ég myndi ekki einusinni reyna það með EF 800/5.6L, annaðhvort færi myndavélin & linsan eða úlnliðurinn við svoleiðis athöfn.

Canon RF 800mm f/11 IS, ISO 640
Canon RF 800mm f/11 IS, ISO 1600

Þessar linsur eru þó ekki eintóm hamingja. Skerpan var aldrei neitt sem ég hafði sérstakar áhyggjur af, nokkurnveginn allar linsur sem hafa verið framleiddar frá árinu 2010 eru mjög skarpar þökk sé mikilli framför í tækni við framleiðslu linsuglerja. Skerpan í RF 600 og RF 800 er ljómandi fín, og ekki hægt að segja að önnur sé betri en hin. Það sem hrjáir linsur með þessari DO tækni og þetta litlu ljósopi, er fyrst og fremst gæðin á því sem er ekki í fókus. Krafturinn til að aðskilja viðfangsefni frá bakgrunni er ekki eins mikill og maður hefði búist við af svona löngu gleri. En það er fullkomlega skiljanlegt þegar linsurnar eru þetta litlar, léttar og ódýrar. Sömuleiðis, vegna litla f/11 ljósopsins, þá nær maður heldur ekki að nýta fókuskerfið á öllum skynjara myndavélarinnar heldur getur vélin einungis notað það sem er fyrir miðju rammans, en þeir sem hafa kynnst nýju speglalausu vélunum hafa einmitt getað nýtt sér allan myndflötinn með öllum öðrum linsum. Hér fyrir neðan ætla ég að skella upp nokkrum samanburðarmyndum, hægt er að færa stikuna fyrir miðju til að bera saman.

Fyrsti samanburðurinn sýnir muninn á f/11 og f/5.6 ljósopum. Tekið með Canon EF 500mm f/4L IS + 1.4x margfaldara sem gerir linsuna að 700mm f/5.6. Viðfangsefnið er í ~10 metra fjarlægð og bókin í bakgrunni er ~80cm frá viðfangsefninu. Þarna sést bersýnilega hver munurinn er aðskilnaði viðfangsefnis og bakgrunns. Meiri fjarlægð milli viðfangsefnis og bakgrunns hefði gert muninn enn áþreifanlegri.

[bafg id=“519″]


Seinni samanburðurinn sýnir muninn á RF 600mm og RF 800mm.

[bafg id=“567″]


Linsurnar eru þannig að það þarf að „aflæsa“ þeim fyrir notkun. Þetta er sniðug leið til að gera þær meðfærilegri á milli verkefna og var ég fljótur að venjast því að aflæsa þeim og lengja fyrir myndatöku. Myndavélin neitar að mynda ef þær eru í læstri stöðu. Hér í næsta samanburði má sjá hvernig þær eru í læstri og ólæstri stöðu, og einnig sést stærðarmunurinn á móti 4kg+ Canon EF 500mm f/4L IS með áföstum 1.4x margfaldara og EF>RF millihring, og svo tveim algengum RF linsum.

[bafg id=“569″]


Ef ég var ekki búinn að nefna það, þá eru þessar nýju RF600 og RF800 linsur, RF linsur en ekki EF. Það þýðir að þær virka eingöngu á nýju speglalausu vélarnar frá Canon, það er að segja Canon EOS R, RP, R6 eða R5.

Canon RF 600mm f/11 IS, ISO 2000

Það eru mörg ný sjónarhorn í boði með þessum óvenjulegu linsum. Það er erfitt að fullyrða hvor þeirra er betri, eða hvora þeirra þú ættir að kaupa. Þær eru báðar sennilega best ætlaðar fyrir smáfugla, en ég hugsa að RF600 linsan hafi ögn meira notagildi umfram smáfugla og er sömuleiðis talsvert minni, léttari og ódýrari. Ef smáfuglar eru aðaláhugamálið, þá er auðvitað RF800 engin spurning. Þegar þetta er ritað þá kostar RF600 linsan 149.900 kr. og RF800 kostar 189.900 kr. hjá umboðsaðilanum, Origo.

Í takmarkaðan tíma verður hægt að nálgast DNG(RAW) útgáfur af öllum ljósmyndunum í þessari umfjöllun með því að smella hér. Hægt er að fjarlægja myndvinnsluna mína og sjá frumritin með Photoshop og/eða Lightroom. Þessi hlekkur rennur úr gildi þann 1. júní 2021.

Ég þakka Halldóri Jóni Garðarssyni hjá Canon á Íslandi / Origo kærlega fyrir lánið á þessum og öðrum græjum í gegnum tíðina.

Canon RF 600mm f/11 IS, ISO 2000
Canon RF 600mm f/11 IS, ISO 640
Canon RF 600mm f/11 IS, ISO 3200. Þessi mynd var tekin frá bensínstöðinni í Grafarvogi, af sinubruna í Grafarholti, uþb. 2.2km á milli.
Canon RF 600mm f/11 IS, ISO 1600

Höfundur heitir Kristján U. Kristjánsson og er forfallinn áhugaljósmyndari og græjudellukall sem hefur tekið myndir á stafrænar myndavélar síðan 1998 og hef á einhverjum tímapunkti átt og prófað nánast öll myndavélakerfi, og átt vandræðalega mikið af linsum í gegnum tíðina frá Canon, Sony, Nikon, Fuji, Pentax 645, Phase One, Mamiya o.fl.

Canon RF 800mm f/11 IS, ISO 4000
Canon RF 800mm f/11 IS, ISO 10.000
Canon RF 600mm f/11 IS, ISO 320
Canon RF 800mm f/11 IS, ISO 1000
Canon RF 800mm f/11 IS, ISO 2000