Í nafni samstöðu vegna hertra smitvarnaaðgerða frestuðum við kvöldröltinu sem átti að vera síðasta þriðjudag. Vonandi kemst jafnvægi á faraldurinn bráðlega og þá getum við endurskoðað kvöldrölt fljótlega. Að því sögðu ætlum við að prófa svolítið nýtt. Okkur langar að efna til myndvinnsluæfinga á þann hátt að nokkur okkar leggja til ljósmyndir í púkk og þegar 10 ljósmyndir hafa borist munum við safna þeim saman og bjóða „bunkann“ fram sem heimavinnu til ykkar allra sem vilja. Allir fá tækifæri til að spreyta sig á myndvinnslu þessara 10 mynda og að nokkrum dögum liðnum munum við smala saman afrakstrinum og birta útkomuna fyrir alla að sjá og bera saman. Það eru tvær lexíur í þessu, annarsvegar að æfa okkur í myndvinnslu og hinsvegar að sjá hve ólíka túlkun er hægt að draga fram út frá handbragði hvers og eins einstaklings. Þetta er ekki keppni og ekki gagnrýni, þetta er eingöngu æfing til þess að læra, njóta og hafa gaman af. 1) Veldu mynd úr þínu safni til þess að deila með okkur hinum. Reyndu að vanda valið og velja mynd sem þú telur að hægt sé að vinna með í myndvinnslu, mynd af múrvegg væri til dæmis óhentugt innlegg. Skemmtilegast væri að fá vandaða landslagsmynd, kyrralífsmynd, abstract, arkitektúr eða portrait sem dæmi. Við viljum ekki fá hversdagsmynd eða „fjölskyldusnapp“, ekki senda okkur mynd sem þú myndir ekki nenna að vinna sjálf/ur. 2) Sendu aðeins eina mynd, RAW skrá helst, á myndir@fokusfelag.is fyrir kl. 18 föstudaginn 16. október. Best er að nota wetransfer.com til að koma viðhengjum stærri en 25MB til okkar. 3) Laugardaginn 17. október munum við senda ykkur hlekk þar sem hægt verður að sækja þessar 10 myndir í einum bunka. Þið hafið til kl 18.00 mánudaginn 19. október til þess að vinna og skila inn ykkar myndum. Skemmtilegast væri ef allir þátttakendur myndu vinna allar 10 myndirnar í bunkanum. Ljósmyndum skal skila sem JPG til baka. 4) Þriðjudagskvöld 20. október munum við birta afrakstur ykkar. Ef mjög margar myndir berast þá munum við líklega skipta þessu upp í nokkra pakka og endurtaka leikinn fljótlega eftir að fyrsta umferð klárast. kveðja, stjórnin |