„Þá breyttist allt“ – sögustund um Reykjaneselda

Þriðjudagskvöldið 4. mars komu um 40 félagar saman og hlustuðu á magnaða frásögn Sigurðar Ólafs Sigurðssonar, ljósmyndara, af því hvernig hann hefur myndað þá sögulegu viðburði sem átt hafa sér stað á Reykjanesi undanfarin ár.

Fókusfélagar hlustuðu af athygli á allar sögurnar sem Sigurður hafði að segja. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson.

Sigurður hefur í starfi sínu sem ljósmyndari fyrir Landsbjörgu, Almannavarnir, lögreglu og aðra viðbragðsaðila verið í miklu návígi við þessa atburði alla og myndað tengsl við fólkið sem stendur í hringiðunni, bæði björgunaraðila og íbúa á svæðinu.

Nálægð Sigurðar við atburðina í Grindavík var mikil og frásögn hans var full af lífi. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson

Það var auðheyrt á allri frásögn Sigurðar að hann hefur nálgast viðfangsefnið af virðingu, hvort sem það er fyrir fólkinu sem hefur misst dýrmætar eigur sínar, eða fyrir þeim náttúruöflum sem hafa verið að verki í þessum jarðhræringum.

Sigurður gaf út ljósmyndabókina Reykjanes vaknar fyrir síðustu jól. Bókin inniheldur fjölda mynda og magnaðar frásagnir. Mynd: Tryggvi Már

Það er víst stundum sagt að mynd geti sagt meira en þúsund orð og það má með sannig segja að þá hafi þessi kvöldstund verið tugþúsunda orða virði. Það er ljóst að með vinnu sinni hefur Sigurður safnað mikilvægum heimildum um sögulega atburði og hann miðlaði þeim afskaplega skemmtilega í kvöld.

Starf Sigurðar í björgunarsveit hefur gefið honum einstakan aðgang að atburðunum á Reykjanesi og hann hefur sannarlega nýtt þann aðgang vel. Mynd: Tryggvi Már

Frekari upplýsingar um Sigurð og myndirnar hans má finna á vefsíðu hans, https://sosmyndir.is/, auk þess sem hann er á instagram, https://www.instagram.com/sosmyndir/.

Spjallað eftir fyrirlesturinn. Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson

Fókus þakkar Sigurði fyrir frábæra kvöldstund. Ef þig langar að komast í skemmtilegan félagsskap áhugafólks um ljósmyndun og komast á áhugaverða fyrirlestar eins og þennan, er hægt að skrá sig til leiks hér á vefnum.