Fókus vaknar á ný eftir jólafrí og glæsileg vordagskrá er óðum að taka á sig mynd. Að vanda verður boðið upp á fræðslu og fyrirlestra, langar og stuttar ferðir og kvöldrölt, ásamt sýningu og árbók.
Sýning og árbók
Dagskráin er að sjálfsögðu birt með fyrirvara um breytingar en meðal stærri viðburða má nefna að sýning félagsins verður opnuð þann 20. febrúar. Þar munu tæplega 40 félagar sýna myndir í Gróttusalnum á Eiðistorgi.

Að auki stendur undirbúningur fyrir árbók félagsins yfir. Árbækurnar innihalda oft hápunkta þess sem félagar mynduðu á árinu sem er nýliðið og eru fjölbreytt og skemmtilegt yfirlit.
Faraldsfætur og flökkukindur
Kvöldröltin okkar hefjast aftur í febrúar, og þá í tengslum við Vetrarhátíð í Reykjavík, en kvöldrölt eru skemmtilegur hluti af starfsminni, eins konar örferðir á höfuðborgarsvæðinu.

Tvær dagsferðir eru á dagskránni þar sem félagar fara saman um áhugaverðar slóðir í leit að áhugaverðu myndefni, spjalla um ljósmyndun og skiptast á góðum ráðum.

Í vor verður stefnan síðan sett á Suðausturland þar sem farið verður um Síðu, Fljótshverfi og gist á svæðinu í 3 nætur. Í vorferðum ferðast félagar saman um stærri svæði, kynnast landslagi og sögu svæðanna og mynda nánast allan sólarhringinn.

Kvöldfundir og fræðsla
Að auki verða okkar hefðbundnu kvöldfundir og fræðslukvöld á sínum stað í dagskránni. Við höfum á undanförnum árum fengið áhugaverð og skemmtileg erindi frá ýmsum ljósmyndurum, auk þess sem félagar hafa verið duglegir að deila þekkingu og reynslu.

Viltu vera með?
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í skemmtilegum viðburðum eins og þessum hvetjum við þig til þess að skrá þig í félagið.
Í félaginu er fólk á öllum aldri með mismunandi áherslur, stíl og smekk. Nú er rétti tíminn til þess að hitta annað áhugafólk og læra meira um ljósmyndun.