Þriðjudagskvöldið 10. september mættu 45 Fókusfélagar á kynningarfund þar sem stjórn kynnti dagskrá komandi vetrar. Í vetur er meiningin að nýta krafta félagsmanna í meira mæli, efna meðal annars til jafningjafræðslukvölda þar sem ýmsir angar ljósmyndunar verða skoðaðir, rýna saman í myndir félaga og læra hvert af öðru.
Að auki kynnti ferðanefndin haustferðina og skráning í hana hófst. Félagsmenn munu fá tölvupóst fljótlega með nánari upplýsingum og hlekk á skráningu. Mikill áhugi var á ferðinni og við hlökkum til að fá ferðasögu og sjá myndir frá félögum.
Sýningarnefnd fór yfir þema næstu sýningar og hvatti félaga til þess að byrja strax að huga að hugsanlegum myndum til innsendingar. Það er alveg sérstök tilfinning að taka þátt í samsýningu sem þessari og ljóst að margir félagar hlakka til.
Aðrir fastir liðir í dagskrá haustins, svo sem kvöldrölt, dagsferðir og opin hús, voru kynntir og í lokin voru almennar umræður um áherslur í félagsstarfinu. Þegar formlegri dagskrá lauk sátu félagar í góða stund og spjölluðu. Góð kvöldstund sem lofar góðu um kraftmikið og skemmtilegt starf framundan.