Texti unnin úr frásögnum nokkurra félaga.
Upphaf ferðar
Föstudaginn 20. september hófst ævintýraleg haustferð okkar í Veiðivötn. Eftir langan vinnudag hópuðust ferðalangarnir saman í Norðlingaholti, spenntir að komast úr amstri daglega lífsins og taka sér smá pásu frá hversdagsleikanum.
Klukkan 17:00 lögðum við af stað í rútu, undir öruggri stjórn Einars Vals félaga okkar. Níu félagar úr Fókus höfðu tekið sér far með rútunni, sem var þéttpökkuð af fólki, farangri, græjum og nesti.
Á leið inn á hálendið
Við stoppuðum í Hrauneyjum um klukkan 19:00 þar sem við fengum okkur kvöldmat, teygðum úr okkur og ræddum ferðaplanið. Þaðan héldum við áfram inn á hálendið í svartamyrkri, þar sem sandurinn blandaðist himninum og auðnin var algjör.
Það var varla hægt að greina skálann við Tjaldavatn þegar við renndum í hlað. Við tæmdum bílinn, komum okkur fyrir og nutum kvöldhressingar áður en allir fóru í koju, spenntir fyrir ævintýrunum sem biðu okkar næsta dag.
Ljósmyndaferð um svæðið
Morguninn eftir vöknuðum við snemma, þó skýjafar hafi skyggði á sólarupprásina sem við höfðum vonast eftir. Eftir að hafa yljað okkur á morgunkatfi héldum við af stað til að skoða svæðið í kringum okkur.
Við stoppuðum á vel völdum stöðum og hópurinn flykktist út að leita að spennandi myndefni. Þó dagurinn hafi byrjað nokkuð kaldur og grár, fór mjög fljótlega að birta til, lægja og hlýna sem vakti mikla gleði. Landslagið var svo stórbrotið að „úúú“-in og „váá“-in heyrðust vel fram í bílstjórasæti.
Kvöldverður og skemmtun
Um fimmleitið snérum við aftur í skálann og hófst þá eldamennskan. Verkum var skipt á milli hópsins – sumir undirbjuggu hráefnið, aðrir kveiktu í kolunum og röðuðu á borð, á meðan hinir hvíldu sig eða fengu sér sundsprett í vatninu.
Sólsetrið sletti hlýjum bjarma yfir landslagið og spegilslétt vatnið tvöfaldaði fegurðina. Alveg töfrum líkast!
Þegar klukkan var að nálgast átta og garnagaulið farið að óma um húsið var kallað til matar. Hópurinn settist niður og naut frábærrar máltíðar eftir viðburðaríkan dag. Gleðitár og hlátrarsköll lýsa vel þeim samtölum sem áttu sér stað við matarborðið og hvert einasta andlit ljómaði.
Ef þú hefur áhuga á að koma með í ferðir eins og þessa, þá hvetjum við þig til að skrá þig í félagið.
Í félaginu er fólk á öllum aldri með mismunandi áherslur, stíl og smekk. Nú er rétti tíminn til þess að hitta annað áhugafólk og læra meira um ljósmyndun.
Norðurljós og dansgleði
Til að kóróna daginn gerði alveg fullkomna stillu og norðurljósin létu sjá sig í stutta stund við mikinn fögnuð. Eftir það var farið aftur inn og dansað fram á nótt við gamla slagara í bland við nútíma fransk/belgíska rappdanstónlist að hætti Óskar!
Sunnudagur
Sunnudagsmorguninn hófst snemma. Himininn var grár, blankalogn ríkti og þokulæða lá yfir vatninu. Umhverfið virtist snævi þakið, eins og veturinn hefði skyndilega skotið upp kollinum. Smám saman fór að glitta í sólargeisla og ferðalangar streymdu út til að fanga þessi fyrstu augnablik dagsins á filmu. Ljósið skein og glitraði á hríminu, sem bráðnaði hratt í morgunsólinni.
Eftir morgunverð var farinn stuttur bíltúr að nærliggjandi vatni sem ekki hafði verið heimsótt daginn áður. Þar blasti við hópnum blankalogn, spegilslétt vatn og heiðblár himinn. Að því loknu var hafist handa við að ganga frá og þrífa skálann. Verkaskipting var skýr og náðist að tæma húsið og pakka í bílinn á mettíma.
Áður en við lögðum af stað heim stoppuðum við til að skoða Tröllið við Tungnaá, sem reyndist magnaður staður og tilvalinn fyrir óvænta nestispásu. Þrátt fyrir smávegis vegavinnu og vangaveltur, tókst að halda áfram ferðinni og heimsækja nokkra staði sem höfðu verið framhjá keyrðir daginn áður. Veðrið tók að grána á köflum, en létti svo til aftur og bauð upp á fjölbreytt myndefni.
Viftureimin á rútunni datt af í miðri brekku. Félagar okkar sýndu þá samheldni og útsjónarsemi með því að moka hallann í brekkunni í burtu til að tryggja að rútan kæmist áfram án vandræða á meðan að bifvélavirkjar hópsins hlúðu að drossíunni.
Að ósk ferðalanga var tekið eitt stopp í viðbót úti í auðninni þar sem ekkert var í kring nema svartur sandur. Síðasta viðkoman var í Hrauneyjum þar sem hópurinn fékk sér kaffi, bætti lofti í dekkin og sumir fengu sér bita. Þaðan og alla leið til Reykjavíkur ríkti ró og værð yfir hópnum eftir viðburðaríka ferð.
Lokaorð
Ferðin var sannkallað ævintýri, full af sköpun, hlátri og kærleika. Hún mun án efa vera minnistæð öllum sem tóku þátt og skilur eftir sig ógleymanlegar minningar um samveru, náttúrufegurð og vináttu.
Við hvetjum áhugasama um að skrá sig í félagið og njóta með okkur í komandi ferðum.
Kær kveðja,
Ferðanefnd Fókus
Fylgist með fleiri viðburðum og ljósmyndaferðum á www.fokusfelag.is.