Hvað þarf að íhuga áður en við kaupum myndavél?

Að kaupa nýja myndavél er oftast stórt skref. Myndavélakaup eru oft töluverð frjárfesting sem getur að einhverju marki haft mótandi áhrif á ljósmyndarann næstu ár, sama hvort um er að ræða byrjanda eða lengra komna. Sumir falla í þá gryfju að telja að það nýjasta henti þeim best eða fylgja í blindni því sem aðrir segja að sé besti kosturinn.

Áður en við kaupum nýja eða notaða vél gæti verið ráð að staldra við og spyrja okkur nokkurra spurninga. Sumar spurningarnar snúa að okkur sem ljósmyndurum og aðrar meira að myndavélinni. Allar helstu ljósmyndavöruverslanir á Íslandi hafi á sínum snærum úrvals starfsfólk sem veitir mjög góða þjónustu. Við erum hins vegar alltaf betur undirbúin fyrir samtalið við sölufólkið ef við höfum áður farið í gegnum nokkrar spurningar. 

Samantektin hér á eftir leggur áherslu á stafrænar nýlegar myndavélar, ekki filmuvélar. Ég fjalla ekki um myndavélar í símum. Ég legg áhersla á meðaldýrar vélar með útskiptanlegum linsum. Þeir sem ætla að kaupa ódýra vél lesa líklega ekki þessa grein, né heldur þeir sem eru í leit að dýrustu tækjunum. Ég kasta fram nokkrum helstu hugtökum á ensku og þeirri íslenskri þýðingu sem ég held að sé ráðandi. Ensku hugtökin hjálpa okkur mögulega í leit að frekari upplýsingum sem finna má á fjölmörgum vefsíðum eins og t.d. youtube.  Allar ábendingar um þýðingar eða innihald þessarar greinar eru vel þegnar.

Höfundur þakkar Hirti Stefánssyni og Söndru Dögg Jónsdóttur fyrir yfirlestur og góðar ábendingar. Allar þær villur sem eftir standa eru á mína ábyrgð.

Spurningar sem snúa að okkur sem ljósmyndurum

Í hvað ætla ég að nota vélina – á hún að fylgja mér í ferðalög, vera fyrst og fremst til fjölskyldumynda, eða ætla ég að nýta hana til skapa list, á vélin að skapa tekjur eða bara til að hafa gaman af ljósmyndun? Sjáum við fyrir okkur að þróast í ákveðna átt sem ljósmyndarar, til dæmis í landslagsmyndir, portrett, íþróttir eða fuglamyndatöku. Hversu miklum tíma hyggst ég verja í ljósmyndun? Verður ljósmyndunin áhugamál, stór hluti af lífsstíl mínum eða jafnvel framtíðarstarf?  

Einnig þarf ég að hugsa um hversu mikið þyngd og stærð vélarinnar skiptir máli í daglegri notkun – erum við tilbúin að bera þungt kerfi með okkur eða viljum við frekar létt og þægilegt tæki? En hér spilar líka inn hvort við viljum einfalt tæki sem leiðir okkur áfram eða vél sem gefur möguleika á meiri stjórn og flóknari stillingum. Þá má ekki gleyma að spyrja hvort ég vilji einnig nota vélina til myndbandsupptöku eða eingöngu ljósmyndunar.  Svo má einnig spyrja sig: Hversu góður ljósmyndari er ég? Þarf ég strax dýrt og flókið tæki á meðan ég er enn að læra?

Spurningar um einkenni myndavélar

Fjárhagurinn er ágæt tenging á milli spurninga um okkur sem ljósmyndara og spurninga um hvaða einkenni nýju myndavélarinnar hentar okkur.

Hversu mikið fé erum við tilbúin til að verja í myndavél og aukabúnað? Mundu að myndavélin er aðeins byrjunin – margir bæta fljótt við flassi, þrífót, aukarafhlöðum, minniskortum, filterum, jafnvel hugbúnaði og ýmsu öðru eftir aðstæðum. Allt hækkar heildarkostnaðinn sem auðvitað má dreifa yfir lengri tíma. Ég ráðlegg lesendum að kaupa ekki ljósmyndaprentara, að minnsta kosti ekki fyrstu 5 árin sem við tökum myndir fyrir alvöru.

Nýtt eða notað

Fljótlega vaknar spurningin um hvort kaupa eigi nýtt eða notað. Fyrir byrjendur sem vilja „alvöru“ vél gæti verið ráð að kaupa góða notaða vél. Notuð vél getur verið hagstæð, en þar skiptir máli að vita hversu margar myndir hún hefur tekið (shutter count) og hversu mikill líftími er líklega eftir í lokaranum. Þetta er ekki ósvipað og eknir km á bifreið, eftir því sem bíllinn er keyrður meira því lækkar hann í endursöluverði. Eftir að hafa notað vél með reynslu í nokkur ár erum við líklega mun betur fær um að meta hvaða nýja vél hentar okkur best. Unnt er að finna allnokkra hópa á Facebook sem sérhæfa sig í kaupum og sölu á notuðum ljósmyndabúnaði, t.d:  Ljósmyndavörur til sölu/óskast  Myndavéladót óskast og/eða til sölu Þar, eins og alltaf þarf að passa sig að kaupa ekki illa fengna muni. Við viljum ekki vera gripin með stolna myndavéla sem við „óvart” keyptum á FB. Það gæti því einnig verið gagnlegt að geyma nótur þegar við kaupum nýja dýra linsu eða myndavél til að auðvelda endursölu.

Linsur

Gæði linsunnar skipta oft meira máli en vélin sjálf þegar kemur að gæðum ljósmynda. Öflug myndavél nýtist illa ef hún er með ódýrri linsu sem dregur úr skerpu og öðrum gæðum myndarinnar. Góða linsu má því líkja við „augu“ vélarinnar – hún ræður miklu um það hvernig heimurinn birtist á myndflögunni og þar með myndinni.

Möguleikinn á að geta fjárfest í góðum linsum í framtíðinni hefur því áhrif á hvaða myndavél við kaupum í dag. Þá er gott að velta fyrir sér hvaða linsu festinga kerfi (lens mount) við ætlum að binda okkur við í upphafi, nú eða til frambúðar. Ef við kaupum miðlungsdýra myndavél í dag, dýra linsu eftir ár og dýra myndavél eftir fimm ár þá er kostur ef við getum notað linsuna áfram. Það er því mikilvægt að horfa fram í tímann. Canon er til dæmis að færa sig úr EF og EF-S linsum yfir í RF linsur. EF linsur virka t.d. ekki á speglalausa Canon myndavélar sem nota RF linsur. Stundum er unnt að nota millistykki fyrir til að linsur passi á vélar með öðru kerfi.

Að nota millistykki gerir ljósmyndara kleift að nýta eldri eða linsur úr ólíkum kerfum á nýrri vélum, en því fylgja ýmsir annmarkar. Aukahlutur milli linsu og vélar getur haft áhrif á jafnvægi og þyngd – sérstaklega þegar þungar EF-linsur eru settar á smærri RF-vélar. Í öðru lagi geta millistykki aukið hættu á villum í samskiptum milli linsu og myndavélar, t.d. í hraða og nákvæmi á sjálfvirkum fókus (autofocus) og stöðugleika (stabilizer) Millistykki bætir við flötum þar sem ryk og óhreinindi safnast fyrir. Millistykki getur líka algerlega rústað kostum eða eiginleikum góðrar linsu.

Stærð myndflögu

Myndgæði byggir m.a. á stærð myndflögu (sensor size). Stafrænar myndavélar eru flokkaðar eftir stærð myndflögunnar (sensor). Full-frame vélar eru með jafnstóran myndflögu og 35mm filmurammi. Vélar með crop-sensor eru með minni myndflögu og ná því að jafnaði myndum af síðri gæðum, sérstaklega í slökum birtuskilyrðum. Þannig næst minni dýptarskerpa sé myndað á stóru ljósopi.

Með því að kynna sér muninn getum við tekið upplýsta ákvörðun og valið vél sem hentar okkar þörfum best. Full-frame mynflaga veitir betri ljósnæmi og möguleika á að stjórna dýptarskerpu, en kerfið er dýrara og þyngra. APS-C (crop-sensor) vélar eru hagkvæmari og léttari.

Speglalaus vél eða með spegli

Þá kemur stóra spurningin: Viljum við kaupa speglalausa (mirrorless) myndavél eða speglavél (DSLR)? Einhverjir framleiðendur hafa tilgreint að þeir séu hættir að framleiða DSLR vélar og ýmsir hafa fullyrt að speglalausar vélar séu að taka yfir markaðinn. DSLR stendur fyrir digital single-lens reflex. Fyrir single-lens kerfið þá kíkti ljósmyndarinn í gegnum aðra linsu en var fyrir framan filmuna eða sensorinn. Með single-lens reflex er sama linsan notuð fyrir augað þitt og fyrir sensorinn og spegillinn notaður til að varpa því sem sést á skjá (optical viewfinder) sem að auga ljósmyndarans rýnir í. Þegar smellt er af þá færist lokarinn upp og opnar leið ljóssins að myndflögunni. Á speglalausum vélum þá fer ljósið í flöguna, úr flögunni í vélrænan hluta myndavélarinnar, þaðan sem myndinni er (sjón)varpað á skjá (electronic viewfinder) sem ljósmyndarinn lítur í. Þessari breytingu speglalausu vélanna fylgja kostir og gallar. Smellurinn þegar við smellum af er farinn og því truflar myndatakan myndefnið síður. Vissulega er hægt að stilla speglalausar vélar þannig að smellur heyrist þegar mynd er tekin. Vélin er léttari án spegla. Vanir ljósmyndarar spyrja sig m.a. hvort vörpunin er ásættanlega hröð og gæðin á skjánum nægjanlega góð til að réttlæta að skipta yfir í speglalausa myndavél (nýjustu og betri vélarnar hafa líklega leyst þetta viðfangsefni á fullnægjandi hátt) Einhverjir ljósmyndarar munu sjálfsagt halda sig við speglavélar m.a. vegna þess að þá hafa þeir aðgengi að úrvali notaðra linsa og oft er rafhlöðuending betri í speglavélum. Nánari og dýpri samantekt á kostum og göllum má finna hér.

Fjöldi megapixla

Fjöldi megapixla skiptir líka máli, en þá gæti þurft að spyrja sjálfan sig: þarf ég 40 milljón pixla ef ég prenta aldrei stærra en A3? Fjöldi pixla er að margra mati minna mikilvægt en gæði myndflögunnar og linsunnar.

Sjálfvirka fókuskerfið

Sjálfvirka fókuskerfið er atriði sem margir hunsa, en er að margra mati lykilatriði í dag. Þeir sem taka myndir af fólki, dýrum eða íþróttum þurfa hraðan og nákvæman fókus, jafnvel með „Eye AF“ sem heldur augum myndefnis í fókus á meðan myndefnið hreyfist. Öðrum nægir einfaldara fókus kerfi.

Myndbandsupptökur

Margar starfrænar ljósmyndavélar nýtast einnig mjög vel í myndbandsupptökur. Myndbandsupptökur í stafrænum myndavélum ráðast af upplausn (t.d. 4K, 1080p), rammatíðni (24–60 fps), litaupptöku (4:2:0 eða 4:2:2), þjöppun (H.264, H.265, ProRes) og bitadýpt (8- eða 10-bita). Aðrir lykilþættir eru hraði minniskorta, sjálfvirkur fókus og möguleiki á Log-prófílum. Þessir eiginleikar ráða myndgæðum, litaupplýsingum, stærð skráa og sveigjanleika í eftirvinnslu. Ef við ætlum að nota vélina í slíkt er gagnlegt að spyrja sölumanninn um hvaða eiginleika myndavélin hefur.  Almennt má búast við að betri gæði feli í sér meiri kostnað. Höfundur leggur ekki stund á myndbandsupptökur og þiggur því allar góðar breytingartillögur um þennan kafla, já eða aðra kafla ef því er að skipta.

Annað

Skjár sem hægt er að snúa, grip og notendaviðmót skiptir einnig máli. Vélin þarf að liggja vel í hendi og vera skýr í notkun. Sjálfvirki fókusinn er afar flókinn í nýjum vélum og margt að læra. Hugsanlega er handstilltur fókus bara ágætur fyrir suma. 

Rafhlöðuending skiptir miklu máli, sérstaklega fyrir þá sem mynda mikið utandyra, á ferðalögum eða taka upp myndbönd. Sum kerfi bjóða upp á mjög langa rafhlöðuendingu, á meðan önnur krefjast þess að hafa alltaf auka rafhlöður við höndina. Þá er einnig vert að huga að endingu og veðurþoli vélarinnar. Í íslenskum aðstæðum, þar sem rigning, vindur og kuldi þekkist, getur vatns- og rykvörn skipt sköpum og ráðið því hvort vélin nýtist í erfiðum aðstæðum.

Önnur mikilvæg spurning er hvaða umhverfi eða vistkerfi (ecosystem) vélin tilheyrir. Sum merki bjóða upp á breitt úrval linsa og aukabúnaðar sem gerir okkur auðveldara að þróast áfram innan kerfisins. Þar skiptir líka máli hversu notendavænt kerfið er, þá á ég bæði við takka og grip, en einnig hversu auðvelt er að stilla vélina eftir eigin þörfum. Eins og með margt annað, þetta venst allt með góðri æfingu

Tengingar við önnur tæki verður sífellt mikilvægari. Nú er algengt að myndavélar séu með Wi-Fi eða Bluetooth til að flytja myndir beint í síma eða tölvu, og sum nýjustu kerfi bjóða upp á USB-C tengingu sem hraðar og einfaldar flutning. Reglulegar hugbúnaðaruppfærslur geta einnig lengt líftíma vélarinnar og bætt við nýjum eiginleikum. Að lokum má huga að endursöluvirði, því sum kerfi halda betur verðgildi sínu en önnur og auðveldara er að selja áfram vel þekkt merki.

Í öllum þessum þáttum sem fjallað er um hér að ofan þá er mikilvægt að hugsa einnig um spurninguna: Ef ég fjárfesti í öllum þessum tækjum með öllum þessum gæðum, hvernig ætla ég að koma ljósmyndunum og myndböndunum á framfæri? Ef við horfum á vel teknar myndir, með mikilli skerpu og góðri upplausn í gömlum Samsung síma, þá er ráð að spyrja af hverju keypti ég þessa dýru linsu ef ég sér ekki muninn?

Samantekt

Ekkert einfalt svar er við spurningu „Hvaða myndavél hentar mér best“. Glíman við spurninguna verður áhugavert ferðalag um eigin þarfir, fjárhagsramma og framtíðaráform. Það borgar sig að hugsa þetta áður en við förum í verslunina og kolföllum fyrir glansandi nýrri vél sem hentar kannski öðrum betur en okkur. Það er ekki víst að ást við fyrstu sýn eigi við þegar við rekumst á flotta myndavél í búðinni. Munum líka að góð vél gerir okkur ekki að góðum ljósmyndara, til þess þurfum við að læra, ástunda og jafnvel njóta þess að vera í Fókus, að vera í góðum félagsskap þar sem við styðjum hvert annað til að skapa góðar myndir.

Viðaukar

Á þessari síðu er hægt að bera saman vélar hlið við hlið og sjá samanburð á ýmsum einkennum myndavéla (sjá samanburð á dpreview.com).

Ágæt samantekt um kosti og galla speglalausra og speglavéla: https://www.shutterstock.com/blog/mirrorless-vs-dslr-examined

Nánari útlistun á full-frame og crop-sensors: https://www.adobe.com/creativecloud/photography/discover/crop-sensor-vs-full-frame.html

Ágæt samantek á eiginleikum myndavéla fyrir myndbandsupptöku:  https://www.digitalcameraworld.com/features/video-jargon-explained-what-the-specs-mean-and-what-to-look-for

Hér er ágæt grein um sjálfvirk fókuskerfi með áherslu á Nikon vélar, samt alveg ágæt: https://photographylife.com/autofocus-modes 

Ágæt grein um upplausn, það er fjölda megapixla í myndavélum: https://photographylife.com/camera-resolution-explained

Á Wikipediu má finna lista yfir margar linsufestingar (lens mounts) sem hafa verið notaðar í myndavélum og í kvikmyndavélum. Listinn er hins vegar óþarflega langur. https://en.wikipedia.org/wiki/Lens_mount

Stutt útgáfa fylgir hér að neðan: Endilega leiðréttið mig, og gervigreindina sem aðstoðaði mig, ef villur eru í neðangreindri samantekt  

Canon

  • EF – klassíska festingin fyrir full-frame og APS-C DSLR (kom 1987).
  • EF-S – sérstaklega fyrir APS-C DSLR, ekki samhæft við full-frame.
  • RF – nýja festingin fyrir spegillausar EOS R vélar (bæði full-frame og APS-C).
  • EF-M – notuð fyrir eldri spegillausar APS-C EOS M vélar (nú úreld).

Nikon

  • F-mount – klassíska festingin fyrir spegilvélar, bæði filmuvélar og DSLR (frá 1959).
  • Z-mount – nýja festingin fyrir spegillausar vélar (full-frame og APS-C).

Sony

  • A-mount – notað í DSLR og SLT (upphaflega frá Minolta).
  • E-mount – spegillausar vélar (APS-C og full-frame, t.d. Alpha 6000 og Alpha 7 línan).

Fujifilm

  • X-mount – APS-C spegillausar vélar.
  • G-mount – fyrir miðstærðar (medium format) vélar.

Micro Four Thirds (MFT / m4/3)

  • Sameiginleg festing Olympus/OM System og Panasonic fyrir spegillausar vélar með 2× crop factor.

Leica / Panasonic / Sigma (L-Mount Alliance)

  • L-mount – notuð af Leica, Panasonic og Sigma, bæði full-frame og APS-C.

Pentax / Ricoh

  • K-mount – klassíska festingin fyrir DSLR og filmuvélar.
  • Q-mount – fyrir litlar spegillausar vélar (nú úreld).
  • 645-mount – fyrir miðstærðar vélar.

Leica

  • M-mount – fyrir rangefinder vélar (klassíska Leica M-línan).
  • SL-mount – sama og L-mount (sjá að ofan).