Nokkur ráð fyrir byrjendur og lengra komna
Ég byrjaði að taka myndir á Canon-vél í apríl 2022. Í september sama ár hafði ég tekið yfir 10.000 myndir. Með þessum hraða, án reglulegrar grisjunar, fylli ég 2 TB disk á um fjórum árum, eða þrjá slíka ef ég er með tvöfalt afrit eins og margir mæla með.
Fyrir þá sem muna eftir floppy-diskunum þá er 2 TB diskur jafngildir geymsluplássi 1,46 milljóna 3,4 tommu diska. Ef þeim væru staflað hver ofan á annan næðu þeir upp í rúmlega 4.800 metra hæð – næstum eins hátt og Mont Blanc.
Ég sé ekki eftir tímanum sem ég hef varið í myndatöku – ég er orðinn betri ljósmyndari. Að minnsta kosti 20 af þessum myndum eru virkilega góðar. En ég hef varið óþarflega miklum tíma í afritun og skipulag sem hefði mátt forðast með betri myndastjórnun í upphafi. Mest sé ég eftir því að hafa hafa þurft að eyða sömu myndinni oftar en einu sinni – úr skýi, flökkurum og forritum. Hér eru nokkur ráð sem ég hefði sjálfur viljað átta mig á fyrr.
Myndastjórnun
Myndastjórnun vísar til þess að skipuleggja, geyma, flokka og nálgast stafrænar myndir á markvissan hátt. Hún felur í sér að nefna skrár með skýrum hætti, nota möppur, bæta við lýsigögnum og merkingum (metadata, keywords, tags), taka afrit og nýta hugbúnað til að halda safni aðgengilegu og snyrtilegu. Ég geri ráð fyrir að við viljum eyða minni tíma í afritun og leit – og meiri tíma með myndavélinni.
Góð myndastjórnun:
- Auðveldar leit og miðlun,
- Styður við sköpunarferlið,
- Sparar tíma,
- Styrkir frásögn mynda.
Nokkur ráð við myndastjórnun
- Tökum færri myndir – lyftum myndavélinni meðvitað.
- Eyðum slæmum myndum í myndavélinni (með varúð).
- Grisjum myndir reglulega.
- Notum skipulag sem þjónar okkur.
- Leyfum forritum að hjálpa – ekki ráða.
- Verum eigin myndstjórar.
- Fylgjumst með stærð og fjölda mynda.
- Sýnum það sem við geymum.
- Hugsum til aðstandenda eftir okkar dag.
Hér að neðan fer ég nánar í nokkur af þessum ráðum. Ég fjalla lítið um gervigreind sem mun gegna stærra hlutverki í því að einfalda og bæta myndastjórnun í framtíðinni. Eins og flestar reglur eða viðmið í ljósmyndum er ekkert ráð sem hér er gefið algild regla sem aldrei má brjóta.
Tökum færri myndir
Hugsum hvaða ramma við viljum ná áður en við lyftum myndavélinni. Eins er gott að spyrja sig spurninga eins og af hverju er ég að taka þessa mynd. Er myndin góð eða segir myndin sögu? Vil ég muna þetta augnablik? Vekur myndin upp tilfinningar? Þjónar myndin tilgangi, t.d. að ég læri að verða betri ljósmyndari? Bætir þessi mynd einhverju við safnið mitt? Langar mig að skoða þessa mynd aftur eftir 2 ár? Er myndin við hæfi? Auðvitað erum við fljótari að hugsa fyrir hverjar myndatöku eftir því sem við öðlumst meiri reynslu, en hugmyndin er að vita hvaða mynd við viljum skapa, ekki bara vonast til að einhver þeirra verði kannski góð. Snemma á ferlinum tók ég 97 myndir af seglbrettamanni við Gróttu á innan við fjórum mínútum, engin þeirra var sérlega góð.
Eyðum slæmum myndum í myndavélinni
Það eru skiptar skoðanir á því hvort gott sé að eyða myndum beint úr myndavélinni eða ekki. Kosturinn við slíkt er að það minnkar vinnu við grisjun og val í myndvinnsluforriti. Ókosturinn er að það er annars vegar auðvelt að gera mistök og eyða óvart góðu myndinni og það getur verið erfitt að sjá hversu góð myndin er þegar við erum á vettvangi. Sumir segja að það sé betra að bíða með að grisja þegar þú ert kominn heim, að því gefnu að þú sért með nægjanlegt pláss á kortinu fyrir myndatöku dagsins.
Val við innflutning í myndvinnsluforrit
Þegar við færum myndir úr korti í tölvu er tækifæri til að velja myndir til að henda. Þetta tækifæri gefst sama hvort afritun fer fram í stýrikerfi (afrit úr möppu í möppu) í myndvinnsluforriti eða með öðrum hætti.
Sum myndvinnsluforritin hjálpa til við myndastjórnun. Nú nota ég Lightroom Classic(LC) til að afrita myndir af korti yfir á flakkara. Þá get ég valið þær myndir sem ég vil geyma áður en ég formata kortið fyrir frekari myndatöku. LC býr til fyrir mig stigskiptar möppur með dagsetningum sem eru aðgengilegar í og utan LC.
3-2-1 reglan er algeng þumalputtaregla í ljósmyndun. Eigðu alltaf 3 eintök af gögnum: Eina sem þú vinnur með og tvö afrit. Geymdu eintökin á tveimur ólíkum geymslumiðlum, t.d. harður diskur og skýþjónusta, eða SSD og minniskort. Geymdu alltaf 1 eintak á öðrum stað en hin – t.d. í skýinu eða á harða diskinum sem er geymdur annars staðar (t.d. hjá vini, í bankahólfi eða á öðrum stað en þú býrð). Ef við erum með öll 3 eintökin á sama stað eru þau illa varin t.d. fyrir innbroti, slysi og eldsvoða.
Það getur verið góð regla að fylgjast með og skrá reglulega fjölda mynda og umfang í gígabætum talið
Notum skipulag sem þjónar okkur
Það er kostur að kunna vel á stýrikerfið á tölvunni. Það er líka kostur að lesa skilaboð sem koma upp þegar stýrikerfi eða forrit spyr þig hvort öruggt sé að þú ætlir að gera það sem beðið er um, sérstaklega þegar við erum að koma upp nýju verklagi við myndastjórnun.
Góð myndastjórnun byrjar á skýrum skráarnöfnum og skipulagi á möppum. Algengt er að dagsetningar, atburðir og nöfn séu notuð til að hjálpa til við að halda skipulagi.
Algengt er að nota ártal fremst, þá mánuð, svo dagsetningu og loks stutta tilvísun í myndefni eftir því sem við á t.d. 2025-07-04-Næturferð Fókus. Þessi mappa er svo geymd möppu merkt ári og mögulega mánuði. T.d. 2025-07. Samræmt nafnakerfi auðveldar röðun og leit að góðu myndinni. Það er gott að nota 07 í stað 7 til að auðvelda röðun á möppum í bæði Windows og Mac.
Ég nota allaf RAW skrár og vista JPG til birtinga. Gott er að kynna sér, eða prófa sig áfram, hvort myndvinnsluforrit sem við notum breyti hráskránni eða geymi breytingar á annan hátt.
Lykilorð og merkingar (metadata, tagging, keywords) auðvelda að finna myndir af fólki, stöðum eða viðfangsefnum. Við getum notað stjörnugjöf, litakóða og flöggun og önnur tæki í myndvinnsluforritum til að flokka og forgangsraða. Hvert forrit er með sína kosti og galla. Eftir tveggja ára reynslu komst ég að því að Lightroom Classic hentar betur til myndstjórnuna en skýjalausna útgáfan. LC býður uppá Catalog- eða bókhaldskerfi um skrár sem geymdar eru á t.d. flakkara. Þegar ég vinn með mynd í LC og ákveð að eyða myndum get ég valið um hvort myndinni sé aðeins eytt úr Catalog eða bæði Catalog og af flakkaranum. Þegar ég notaði skýjalausna Lightroom þurfti ég bæði að eyða mynd úr Lightroom og því miður eyða með sér aðgerð af flakkaranum.
Myndvinnsluforrit bjóða uppá merkingar í myndaforritum, t.d. stjörnugjöf, 1-5 stjörnur. Flöggun mynda Flag as Reject og Flag as Pick. Notkun lykilorða, Keywords notkun Smartfolders og Smartfolder sets. Dæmi um Keyword sem ég nota eru: Viti, Kirkja, Foss, Fugl, ICM, Grótta. Gólk notar ýmist lykilorð í et. eða ft, Fugl eða Fuglar, en mikilvægt er að viðhalda samræmi til að einfalda leit síðar. Ljósmyndasafn Reykjavíkur notar eintölu sama hvort einn eða hundruð fugla eru á sömu myndinni.
Smartfolders gætu verið: Viðburðir, Landslag, Byggingar, Project X, Náttúrlífsmyndir. Smartfolders yfirskrifar ekki möppukerfið í Windows eða Mac heldur er þvert á það. Þannig geta mynd í möppunni 2025-05-02 og möppunni 2024-11-22 verið merktar í smartfolder Kvöldrölt
Árið 2022 eða 2023 tók ég ágæta mynd af öndum við Gróttu, en ég man ekki hvenær. Til þess að finna myndina aftur get ég leitað eftir stjörnugjöf t.d. ef ég man eftir að hafa gefið myndinni meira en 2 stjörnur, eða eftir lykilorðunum Grótta eða Fugl.
Ekkert kerfi er betra en notandinn. Ef við setjum ekki lykilorðin inn þá getum við ekki leitað eftir þeim. Gervigreindin er reyndar farin að aðstoða við þetta verkefni. Sem dæmi þá er Lightroom ágætt í að hópa saman myndir af sama einstaklingnum. Lightroom spurði mig nýlega hvort um væri að ræða sömu manneskju, 80 ára gömul kona og 55 ára dóttir hennar.
EXIF
EXIF (Exchangeable Image File Format) er tæknilegt skráarsnið sem geymir sjálfkrafa margvíslegar upplýsingar um myndina þegar hún er tekin — svo sem ljósop, lokarahraða, ISO stillingu, dagsetningu, tíma, sem og hvaða myndavél og linsa voru notuð. Þessar upplýsingar geta nýst við flokkun og skrásetningu mynda, en gildi þeirra liggur ekki síður í því að hjálpa ljósmyndurum að þróast og læra. Með því að rýna í EXIF gögn — eigin myndir og annarra — má sjá hvaða stillingar leiddu til ákveðinnar útkomu, bera saman mismunandi aðferðir og öðlast dýpri skilning á tækninni sem liggur að baki góðri mynd. Þetta gerir EXIF að öflugu tæki í stöðugri sjálfsendurskoðun, samanburði og þroska í ljósmyndun.
Verum eigin myndstjórar
Við erum ekki bara ljósmyndarar, við erum sögumenn, Við geymum ekki öll orð sem við segjum, ekki heldur allar myndir sem við tökum eða sköpum. Við geymum það sem segir okkur eitthvað, það sem hefur gildi. Forritin eru með ágæt hjálpartæki, eins og keywords en við þurfum líka að huga að því að hafa aðgang að myndum okkar utan forritanna. Við viljum ekki festast gegn eigin vilja í áskrift af dýrum forritum.
Grisjum reglulega
Vissulega verður geymslupláss ódýrara með hverju árinu. Tveggja TB flakkarar fást nú í Elko frá 15 til 45 þúsundum króna. En að halda utan um myndir snýst ekki bara um geymslupláss – heldur minningar, sköpun og merkingu og já þann tíma sem fer í að finna réttu myndina aftur. Með reglulegri grisjun og aðeins meiri meðvitund við myndatöku getum við haldið safninu lifandi, ekki grafhvelfingu fullri af ónotuðum skrám. Það er ágætt að festa í dagatali árlegan myndahreinsunardag þar sem við setjum niður með gott te eða kakó og förum gegnum myndir ársins og fjarlægjum þær sem ekki þjóna tilgangi.
Spurningarnar hér að neðan nýtast mörgum þegar taka á ákvörðun um hvort eigi að geyma eða gleyma
- Er myndin í fókus?
- Er myndin rétt lýst (hvorki yfir- né undirlýst)?
- Er myndbygging góð?
- Er myndin af einhverju sem skiptir mig máli?
- Á ég aðra betri mynd af þessu viðfangsefni?
- Vekur myndin upp minningu eða tilfinningu?
- Get ég hugsað mér að prenta myndina út eða sýna hana öðrum?
- Er þetta myndin sem ég ætlaði að taka?
- Fór ég aðra leið og náði annarri betri mynd?
- Er myndin góð?
Ekki halda í alla steina sem þú fannst á leiðinni, sérstaklega ef þeir eru bara ryk og grjót.
Sýnum það sem við geymum
Prentum myndir, gerum myndabækur, deilum á samfélagsmiðlum eða tökum þátt í samsýningu Fókus einu sinni á ári. Myndir sem við notum, skoðum og sýnum fá meira líf – og það auðveldar grisjun. Það þroskar okkur líka sem ljósmyndara.
Sama hvort við erum ung eða kornung þá getur það haft áhrif á myndasafnið okkar að hugsa um hvernig við viljum að aðstandendur komi að safninu að okkar dögum liðnum. Viljum við leggja það á afkomendur að þeir fari í gegnum tugi þúsunda mynda og taki ákvörðum um hvað eigi að grisja og hvað sé þess virði að geyma og hvernig eigi að varðveita það? Opinber ljósmynda- og skjalasöfn eru öll með fjölmörg verkefni auk þess er afar ólíklegt að ljósmyndasafnið mitt hafi nokkurt gildi fyrir opinbert ljósmyndasafn.
Kannski er ráð að velja bestu myndirnar og safna saman á aðgengilegan stað til að skilja eftir fyrir eftirlifendur, t.d. fyrir erfidrykkjuna.
Að lokum – mundu að góður ljósmyndari þarf ekki að smella oft, heldur rétt. Þú ert ekki að tapa minningum með því að eyða rusli – þú ert að varðveita þær sem skipta máli.
Eftirmáli
Við skrif á þessum greinarstúf studdist ég við efni af vefsíðunni: https://cyme.io/blog/mastering-photo-management
Ég studdist við það sem ég lærði annars vegar á námskeiði hjá Ellen Ingu Hannesdóttur og hins vegar á námskeiði hjá Díönu Júlíusdóttur. Ég studdist við eigin reynslu, samtal við félaga í Fókus og ég studdist við fjölmörg myndbönd á Youtube. Allar ábendingar eru vel þegnar ef ég má nota þær til að bæta þennan greinarstúf. Ábendingar má senda á stefanhrafnjonsson [hjá] protonmail.com