Þann 4. júlí 2025 fór 21 félagi í Fókus – félagi áhugaljósmyndara – í einstaklega skemmtilega, vel skipulagða og í alla staði vel heppnaða næturferð um Suðurland og Reykjanesskaga.
Fyrsta stopp var við Urriðafoss (kl. 21:10). Urriðafoss í Þjórsá er vatnsmesti foss landsins og annar í röðinni í Evrópu á eftir Reinfall. Meðalrennslið er um 360 rúmmetra á sekúndu sem dugar til að fylla Laugardalslaugina á um 5 sekúndum. Nú eða um 1,2 milljón kaffibolla á hverri sekúndu.
Fossar eru gott dæmi um hvernig sjónarhorn, staðsetning og stillingar ljósmyndarans geta leitt af sér gerólíka nálgun og túlkanir á sama myndefni. Í lok þessarar færslu eru birtar nokkrar seríur ólíkra mynda af sama myndefninu þar sem þetta kemur skemmtilega fram eins og gjarnan í ljósmyndaferðum Fókus.

Vitar og kirkjur voru mikið myndaðar í þessari ferð. Næst var stoppað við Knarrarósvita (kl 22:30). Á Wikipedia segir að „Knarrarósviti er 26 metra hár viti sem stendur við Knarrarós austan við Stokkseyri. Vitinn stendur á landi Baugsstaða og er svæðið kallað kampur. Vitinn er nefndur eftir ós sem er fyrir framan hann sem kallaður er Knarrarós. Hann var byggður árið 1939. Höfundur er Axel Sveinsson, verkfræðingur.“ Allmargar skemmtilegar myndir voru teknar af vitanum frá ólíkum sjónarhornum. Drónamynd Svans sýnir legu vitans ágætlega.

Anna Soffía Óskarsdóttir fræddi ferðalangana um sögu svæðisins og voru ýmsar áhugaverðar draugasögur dregnar fram. Sumir töldu sig sjá merki um drauga í sumum þeirra mynda sem teknar voru um nóttina.
Þriðji áningastaðurinn var við Strandarkirkju þar sem við snæddum nesti undir miðnæturhimni. Lítið sást til sólar í ferðinni en góðir ljósmyndarar láta það ekki koma í veg fyrir að skapaðar séu góðar myndir í enn betri félagsskap.
Einar bílstjóri keyrði um Grindavík þar sem við virtum fyrir okkur sjáanlegar skemmdir á húsnæði og öðrum mannvirkjum sem jarðhræringar síðustu ára hafa valdið.
Næsti viðkomustaður var Brimketill (kl 2:30) sem er um 10 km austan við Grindavík. Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar í Víkurfréttum „Brimketill er laug í sjávarborðinu […]. Hraunið umhverfis Brimketil er gróft, sprungið og með háum, úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210–1240.“ Jón Steinar minnist einnig á að Brimketill hafi jafnframt verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttrölli sem getið er um í þjóðsögu. Myndir Fókusfélaga þaðan voru ólíkar og óvæntar – hver ljósmyndari nálgaðist staðinn með sinni sýn og tækni, sem minnti á að ljósmyndun er ekki einungis að taka mynd, heldur að skapa hana. Ljós, sjónarhorn, hraði og skynjun móta ólíka upplifun á sama myndefninu.
Næsti viðkomustaður var Reykjanesviti (um kl 3:00), sem samkvæmt wikipedia er elsti viti á Íslandi. Margar góðar myndir voru skapaðar við Reykjanesvita af fólki, fuglum og öðru markverðu.
Þá var stoppað við Gunnuhver (um kl. 4:15), skammt vestan við Reykjanesvita. Nafnið Gunnuhver á sér skírskotun í tilvist Guðrúnar Önundardóttur frá Sandhólakoti sem á að hafa gengið aftur við hverinn. Rétt eins og ljósmyndarinn mótar sína mynd með missterka tilvísun í raunveruleikann, þá mótar mannfólkið draugasögur með mis nákvæmum tilvísunum í líf samferðafólks. Allur gangur er á hversu lengi ljósmyndirnar og draugasögurnar lifa eftir sköpun þeirra.

Mynd Friðriks hér að ofan er úr kirkjugarðinum í Hvalsnesi. Á Hvalsnesi hefur staðið kirkja allt frá árinu 1200. En steinkirkjan sem stendur þar nú, Hvalsneskirkja, var vígð árið 1887. Hvalneskirkja (kl. 5:30) var síðasti viðkomustaður áður en haldið var aftur til Reykjavíkur. Þegar hópurinn myndaði þar kirkjuna, kirkjugarðinn og fleira var mikil umferð flugvéla frá Icelandair á leið frá USA til KEF. Kirkjur eru gjarnan vinsælt myndefni og segja má að Fókusfélagar hafi notið sín vel við þessa fallegu kirkju þó svo augnlokin hafi verið þyngri hjá mörgum en linsulokin enda komið fram undir morgun. Rúmum hálftíma síðar var lagt af stað til Reykjavíkur eftir afskaplega góða og ánægjulega næturferð. Lokamynd ferðarinnar, af árvökrum hópnum, er frá Hirti Stefánssyni með aðstoð Einars ökumanns. Á myndina vantar Jón Sigurgeirsson.

Um kl. 6:00 var lagt af stað heim og hópurinn aftur kominn á bílastæði í Reykjavík um kl. 7:00
Nokkrar myndaseríur frá ferðinni:
Gusurnar gengu yfir Gissur



Svanur, Ósk og Stefán mynda stingandi strá



Flug yfir Hvalsneskirkju

Mynd Guðmundar hér að ofan er líklega af FI670 vél Icelandair frá Denver sem lenti í Keflavík um kl 6:00 þann 5. júlí 2025.

Knarrarósviti

Vakað við vitann – Reykjanesviti


Strandarkirkja






Urriðafoss



Landsýn við Strandarkirkju – Höggmynd eftir Gunnfríði Jónsdóttur


