Þriðjudagskvöldið 12. nóvember mættu 35 Fókusfélagar á kvöldfund og hlýddu á mjög áhugaverð erindi. Fókusfélagarnir Gissur Orri Steinarsson og Einar Valur Einarsson sögðu frá mjög ólíkum viðfangsefnum. Annars vegar sagði Gissur frá innahússljósmyndun sinni með áherslu á fágun, fallega lýsingu og sérhæfða myndvinnslu. Hins vegar sagði Einar okkur frá mótorsport ljósmyndun með áherslu á að fanga hreyfingu, kraft og hið hráa umhverfi sem oft einkennir sportið.
Frásagnir þeirra félaga voru einstaklega áhugaverðar og virkilega gaman að heyra hvernig þeir nálgast viðfangsefni sín. Jafnvel þótt þau séu ólík og aðferðirnar sem þeir nota mjög ólíkar má segja að sameiginlegi þráðurinn sé ástríða og virðing fyrir því sem þeir gera.
Gissur sagði okkur frá því hvernig mismunandi aðferðir henta mismunandi rými, hvernig ólíkar myndvinnsluaðferðir henta mismunandi tilgangi myndanna. Sá angi ljósmyndunar sem snýr að fasteignum og arkitektúr er uppfullur af alls kyns smáatriðum sem var virkilega gaman að heyra um.
Einar fór líka í gegnum það hvernig hann hefur þróast sem mótorsportljósmyndari, alveg frá því að hann var að brasa með litla vasamyndavél í fjallaferðum og yfir í það að mynda torfærukeppnir með vandaðri græjum.
Það er alltaf mjög hvetjandi þegar Fókusfélagar segja frá því hvernig þeir nálgast sína ljósmyndun og hversu fjölbreytt viðfangsefni þeirra eru.
Við þökkum Gissuri og Einari kærlega fyrir þeirra framlag!
Viltu vera með?
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í fundum eins og þessum hvetjum við þig til þess að skrá þig í félagið.
Í félaginu er fólk á öllum aldri með mismunandi áherslur, stíl og smekk. Nú er rétti tíminn til þess að hitta annað áhugafólk og læra meira um ljósmyndun.
Næstu viðburðir eru dagsferð um næstu helgi og jólabingó í desember. Sjá dagskrá.