Þriðjudagskvöldið 21. febrúar 2023 hélt Rannveig Björk Gylfadóttir erindi um ICM tækni (Intentional Camera Movement). Hún rakti sögu sína sem áhugaljósmyndari og hvernig þetta tiltölulega óþekkta form ljósmyndunar náði að heilla hana. Hún starfar sem hjúkrunarfræðingur og núvitundarkennari. Gaman að segja frá því að hún skráði sig í Fókus s.l. haust eftir að hafa heyrt af félaginu frá vinkonu í Fókus.
Myndirnar sem hún sýndi voru frá þeim tíma fyrir fimm árum þegar áhugi hennar fyrir ljósmyndum kviknaði, til dagsins í dag. Í dag á abstract landslagsljósmyndun, og sér í lagi með notkun ICM tækninnar, hug hennar allan. Hún hefur sótt ýmis námskeið erlendis til að auka við þekkingu sína.
Að vanda var góð mæting eða um 33 Fókusfélagar, og góður rómur gerður að fyrirlestri hennar og vandaðri glærusýningu.
Við þökkum Rannveigu kærlega fyrir komuna og að deila með okkur þessu skemmtilega ljósmyndaformi. Inni á lokuðu spjallsvæði Fókusfélaga má finna glærukynninguna hennar Rannveigar um ICM.
Við hvetjum ykkur sömuleiðis til þess að kíkja á Instagram síðu Rannveigar.
Að loknu erindi var spjallað um ICM og komandi ljósmyndasýningu Fókus sem opnar 4. mars kl. 14, í Menningarhúsi Borgarbókarsafnins í Spönginni. Vertu velkomin!
Skráðu þig í Fókus ef þig langar til þess að komast í skapandi og skemmtilegan félagsskap áhugaljósmyndara og taka þátt í starfseminni.