Það hefur aldeilis hellingur gerst í félaginu frá síðustu færslu. Í kjölfar COVID þar sem flestum viðburðum þurfti að aflýsa var farið í aðalfund um leið og við máttum hittast og ný stjórn kosin eins og vaninn er. Félagið stóð fyrir þremur, tveggja klukkustunda löngum netstreymum með myndrýni frá góðum gestum á meðan samkomubannið stóð sem hæst. Haldin var ljósmyndasýningin „Fólk í Fólkus“ í Borgarbókasafni Reykjavíkur, Spönginni en sýningin stóð frá 4. júní til 3. júlí og tóku 29 félagsmenn þátt í sýningunni með 64 ljósmyndum. Ferðanefndin stóð ekki á sínu og hélt fjögur kvöldrölt með vikulegu millibili, fyrst á Hvaleyrina, svo Sólfarið í Reykjavík, fuglaljósmyndun við Vífilsstaðavatn og að lokum kvöldrölt með kaffihittingi í Grasagarðinum, en því kvöldrölti lauk með hraðkeppni þar sem 9 félagsmenn tóku þátt og vann Ólafur Magnús Håkansson fyrstu verðlaun með glæsilegri macro mynd sem sjá má við þessa fréttafærslu. 6 mánaðarkeppnir voru á önninni og hlaut Stefán Bjarnason 1. verðlaun fyrir maímánuð þar sem hann fékk prentara í verðlaun í boði Origo / Canon á Íslandi, og nú þegar þessi færsla er rituð er kosning í síðustu keppninni, júníkeppninni. Stjórn er þegar byrjuð að undirbúa haustönn fyrir árið 2020 og vonumst við til þess að sjá marga nýja meðlimi á næsta starfsári og hlökkum til að hitta þá gömlu líka.