Nafnið Fókus, félag áhugaljósmyndara er orðið mörgum kunnugt. Það er einfalt og skýrt: hér hittast þeir sem hafa brennandi áhuga á ljósmyndun, hvort sem þeir vinna við ljósmyndun eða ekki. En þegar nafnið er þýtt á ensku má draga fram áhugaverðan orðaleik sem sýnir hve tungumálið getur verið máttugt.
Ef við kynnum félagið á ensku liggur nær beinast við að segja Focus – Association of Amateur Photographers enda er enska orðið amateur í þessu samhengi þýtt sem áhugamanneskja. Þess ber þó að geta að samþykktir eða lög félagsins tilgreina ekki enskt heiti þess.

Enska orðið amateur er fallegt orð, komið af latínu Amāre – að elska. Í þeirri merkingu er amateur einfaldlega sá sem gerir eitthvað af hreinni ást og ástríðu. Þannig mætti segja að félagið okkar væri í raun „Fókus – félag ástríðuljósmyndara“. Það lýsir vel anda félagsins, gleðinni við að skapa myndir, deila þeim og læra hvert af öðru. Ég er ekki að leggja til breytingar á nafni félagsins, aðeins að draga fram það fallega sem liggur að baki félagsskapnum.
En orðið amateur hefur líka öðlast aðra merkingu á ensku, ekki síst á 20. öldinni. Þar er það stundum notað til að lýsa einhverjum sem er ófaglærður, minna fær eða jafnvel klaufskur. Það hvorki hljómar vel né lýsir á nokkurn hátt anda félagsins.

Nafnið Fókus er afar vel valið á félagsskapinn. Orðið vísar ekki bara til ljósmyndatækni, heldur líka til einbeitingar og sýnar ljósmyndarans. Félagið heldur fókus á það sem skiptir máli: ástríðuna, sköpunina og samveruna. Hvort sem við erum „áhugafólk“ eða „ástríðuljósmyndarar“ er ljóst að við eigum öll það sameiginlegt að njóta þess að skapa myndir og upplifa fegurð í gegnum linsuna, í eftirvinnslu og birtingum þeirra mynda sem við sköpum.
Og talandi um samveru: Allir ástríðuljósmyndarar, innan og utan félagsins, eru hjartanlega velkomnir á opnunarkvöld Fókus þann 16. september kl. 20:00. Þar verður tækifæri til kynnast starfsemi félagsins, hitta félaga, sjá myndir, fá innblástur og njóta þess að deila ástríðunni fyrir ljósmyndun með öðrum. Dagskrá haustsins, sem er fjölbreytt að vanda, má sjá hér https://fokusfelag.is/dagskra-2025-haust/
