Vetrarstarfið í Fókus er komið á fullt. Rétt um 50 manns mættu á kynningarfund í síðustu viku og í gærkvöldi mættu 29 manns á fræðslu um tæknileg undirstöðuatriði ljósmyndunar.
Kynningarfundur
Þann 16. september var opinn kynningarfundur um starfsemi vetrarins. Rétt um 50 manns mættu og við sáum þó nokkuð af nýjum andlitum sem var virkilega ánægjulegt.

Það er margt spennandi og skemmtilegt framundan hjá félaginu. Ferðanefndin kynnti komandi haustferð, dagsferðir og kvöldrölt þar sem við ættum öll að finna eitthvað við hæfi til að mynda, spjalla og læra hvert af öðru.
Sýningarnefndin sagði frá ákaflega spennandi verkefni þar sem félagar fá tækifæri til að sýna myndirnar sínar á frábærum stað. Meira um það síðar. Stefnt er að því að auka aftur vægi árbókarinnar í starfi félagsins og gera hana veglegri. Að auki verða reglulegir kvöldfundir, opin hús og myndvinnslukvöld.
Það hefur heldur fjölgað í félaginu og eru nú um 135 manns skráðir félagar í Fókus og geta tekið þátt í þessu öfluga starfi sem framundan er í vetur.
Fræðslukvöld

Í gærkvöldi, 23. september, mættu svo 29 félagar á fræðslufund. Hugmyndin með þessum fundi var að kynna grunnatriði ljósmyndunar fyrir nýjum félögum og í raun öllum sem vildu dusta rykið af þekkingu á ljósopi, hraða og ISO.

Við byggðum fræðsluna upp á stuttum innleggjum þar sem þessi grunnatriði voru útskýrð og hvaða áhrif mismunandi stillingar hafa á útkomuna. Síðan prófuðu félagar sig áfram með stillingarnar við mismunandi aðstæður og hjálpuðust að við að finna út úr hlutunum.

Í Fókus viljum við gjarnan byggja upp þekkingarsamfélag þar sem félagar deila þekkingu og reynslu sín á milli og óhætt að segja að það hafi heppnast vel þetta kvöld.

Þetta var fyrsta fræðslukvöld fyrir nýliða sem hefur verið haldið í allmörg ár og reynslan af þessu fyrsta kvöldi er mjög hvetjandi og aldrei að vita nema við höldum þessari fræðslustarfsemi áfram.

Viltu vera með?
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í skemmtilegum viðburðum eins og þessum hvetjum við þig til þess að skrá þig í félagið.
Í félaginu er fólk á öllum aldri með mismunandi áherslur, stíl og smekk. Nú er rétti tíminn til þess að hitta annað áhugafólk og læra meira um ljósmyndun.