SKOTIÐ í Fókus 2026

Fókus – félag áhugaljósmyndara í samstarfi við Ljósmyndasafn Reykjavíkur heldur sýningar í SKOTINU allt árið 2026.

Sýningarröðin kallast „ SKOTIÐ í Fókus 2026 “ alls verða sjö sýningar með mismunandi þemu. Sýnendur verða fjörutíu og sex talsins og hver sýning stendur yfir í sex vikur.

Félagsmönnum var send skoðanakönnun þar sem þeir gátu tilgreint hvernig þemu þeir vildu sjá á sýningunum og fengu eftirtalin þemu flest atkvæði:

Hreyfing, sýningartími 9. jan. –22. febr.
Landslag, sýningartími 27. febr. –12. apríl
Vetrarmyndir, sýningartími 17. apríl –31. maí
Abstrakt, sýningartími 5. júní –19. júlí
Götumyndir, sýningartími 24. júlí –13. sept.
Svart-hvítt, sýningartími 18. sept. –1. nóv.
Vatn, sýningartími 6. nóv. –31. des.

Sýnendur í fyrsta þema “Hreyfingu” eru:

  • Dagþór Haraldsson.
  • Geir Gunnlaugsson.
  • Ósk Ebenesersdóttir.
  • Ólafur Magnús Håkansson.
  • Sveinn Aðalsteinsson.
  • Þorsteinn Friðriksson.

Orðið “hreyfing” má túlka í ljósmynd á mismunandi vegu, til dæmis með því að frysta hreyfingu í mynd, fylgja hreyfingu eftir með myndavélinni, eða taka myndir af ýmsum “hreyfingum” samfélagsins, svo sem verkalýðshreyfingu eða mótmælahreyfingu. Það verður spennandi að sjá hvernig þessir sýnendur vinna með þemað.

Félagar sem taka þátt í þessum sýningum eru margir hverjir búnir að vera í félaginu lengi, aðrir eru að taka sín fyrstu skref í sýningarhaldi. Ástríða fyrir ljósmyndun er grunnur félagsmanna. Allmargir félagsmanna hafa sótt sér menntun í ljósmyndun á námskeiðum hér heima og/eða erlendis. Einstaka félagsmenn eru nemendur í Ljósmyndaskóla Íslands og aðrir fullnuma ljósmyndarar frá Tækniskólanum.