Jólarölt Fókus – Selfoss

Það var eitthvað sérstaklega hátíðlegt við það að þrettán félagar í Fókus hófu árlegt jólarölt á Norðlingaholti: þrettán ljósmyndararnir, hver með sitt skap, sína linsu og sína skoðun á því hvort betra væri að klæða sig eins og í fjallgöngu eða til göngu á rauða dreglinum í Cannes. Hópnum var skipt í bíla og svo ekið af stað stundvíslega kl. 12:10 yfir heiðina. Á leiðinni skiptist fólk á sögum og vangaveltum um stillingar á myndavélum í skammdeginu. Ekki var annað að sjá en að allir væru í góðu skapi — og að Gunna væri á nýju skónum. Enginn vissi hvernig dagurinn færi en eitt var víst að alltaf verður ákaflega gaman þá er fókusfélagar hittast. 

Mynd: Anna Soffía Óskarsdóttir

Tveir félagar bættust í hópinn á Selfossi. Þegar við lögðum við kirkjuna á Selfossi var það eins og bærinn hefði beðið eftir okkur. Ljósin í bænum voru eins og leiðarljósið skæra fyrir vitringana. Hópurinn var allur kominn í hátíðarskap; þótt lítið væri um snjó var nokkuð um krap. Fyrstu smellirnir komu áður en allir höfðu náð að setja réttu linsuna á vélina.

Read more: Jólarölt Fókus – Selfoss

Hópurinn gekk í nýja miðbæinn í hæfilega skipulagðri humátt. Sumir sáu línur og form í byggingum og skreytingum, aðrir sáu sögur í gluggum og speglunum, og einn virtist sjá fullkomna mynd í hverju einasta polli — sem er í raun hæfileiki sem ætti að skrá í félagatali Fókus. Speglanir og ljós á Selfossi urðu fallegt þema dagsins. Jólaljósin snerust við, trjágreinar urðu að abstrakt mynstrum og gróðurinn í fallegum vetrarbúningi — minimalismi náttúrunnar — naut sín ekki síst í makrótökunum.

Mynd: Einar Valur Einarsson

Það er ómögulegt að fara í ljósmyndagöngu í desember án þess að skreppa á kaffihús og finna yl og ilm af kaffi sem fær okkur til að líða eins og við höfum unnið fyrir góðum veitingum. Kaffibollarnir runnu ljúflega niður, jafnvel með smá sykri, súkkulaði og rjóma. Þar var tekin þessi venjubundna pásumynd: hanskar á borði, myndavélabönd í flækju, fólk að sýna hvoru öðru skjáinn og segja hluti eins og „sjáðu þessa!“. Á kaffihúsinu mátti líka sjá skína í rauðum skotthúfum. Þar var nægt framboð af litlum hagnýtum ráðleggingum sem verða til þegar fólk með sama áhugamál hittist.

Mynd: Einar Björn Skúlason

Þegar haldið var í Tryggvagarð varð stemmingin enn jólalegri.  Fjölbreytni hópsins naut sín og sumir stöppuðu niður þrífótum fyrir makrótökur. Þar mátti sjá frostrósir, dropa af snjóbráð renna af laufblöðum og frostbitin ber á greinum — svei mér þá, ef þetta var ekki einiberjarunnur. Litlir hlutir sem enginn tekur eftir nema sá sem leggur sig fram við að sjá öðluðust sjálfstæða tilvist í makrómyndum. Aðrir fóru í MHM, markvissa hreyfingu myndavélar (ICM), eða speglaðar myndir.

Mynd: Jóhanna María Esjudóttir

Einn félagi sagði svo og spurði svo “Hvaða filter ertu að setja á linsuna?“ 

„Ég er einmitt að velta því sama fyrir mér“ svarar hinn um hæl.

Undir lok ferðarinnar tók að dimma og við tókum á móti jólasveinunum frá Ingólfsfjalli. Það var eitthvað dásamlega íslenskt við það: vetrarbær, ljós, fólk með myndavélar á bringu og jólasveinar sem mæta eins og þeir séu að koma úr fjallgöngu. Myrkrið er svo magnað og myrkrið er svo kalt

Mynd: Einar Björn Skúlason

Eitt af því besta við ferðina var að sjá (og mynda!) allt fallega fólkið að taka myndir hvert af öðru. Ekki bara hópsjálfur, heldur þessi einlæga ljósmyndun á ljósmyndurum: einhver sem kúrir við runna til að ná speglun, annar sem hallar sér aftur til að ná ljósi í trjátopp, þriðji sem stendur alveg kyrr eins og hann sé hluti af ljósastaurinum til að vega upp á móti því að þrífóturinn varð eftir í bílnum. Þarna varð til heill heimur af litlum augnablikum sem urðu að myndum um samvinnu, sköpun og gleði. Jólaljós bæjarins voru nýtt í myndir — ekki bara sem skraut, heldur sem sjálfstæður efniviður: litlir bokeh-ljósapunktar eins og jólakonfekt, endurkast af blautu malbiki og þessi mjúka vetrarlýsing sem gerir allt aðeins dýpra og rómantískara.

Mynd: Einar Björn Skúlason

Þegar tók að rökkva og fólk fór að finna fyrir því að dagurinn væri að pakka sér saman eins og jólapakki var haldið heim áleiðis. Og þegar hópurinn leystist upp aftur í bíla og kvaddi, var eins og allir færu heim með tvennt í bakpokanum: minniskort full af myndum — og minningu um dag sem var meira en bara myndataka. Myndirnar minna okkur áfram á að hátíð var í bænum: hlátur á milli smella, hugmyndir sem kviknuðu í samtölum og sú notalega tilfinning að vera í hópi sem sér heiminn aðeins öðruvísi — og kann að meta samveruna.

Einn félagi fagnaði svo sigri þegar hann fann loksins linsulokið sitt sem hafði verið í vasanum allan tímann. Fundurinn staðfesti fyrir honum að jólin eru tími kraftaverka.

Mynd: Einar Valur Einarsson
Mynd: Einar Valur Einarsson
Mynd: Valdimar Þorbjörn Valdimarsson
Mynd: Bára Snæfeld Jóhannsdóttir
Mynd: Bára Snæfeld Jóhannsdóttir
Mynd: Þráinn Vigfússon
Mynd: Þráinn Vigfússon