Að þessu sinni var haustferð félagsins farin á Snæfellsnes. Félagar í ferðinni voru 26 og er þetta mögulega fjölmennasta ferð félagsins. Það ber vitni um uppgang félagsins með líklega mesta fjölda virkra félaga og var hópurinn skemmtileg blanda fólks með ólíkan félagsaldur.
Fólk lagði af stað á mismunandi tímum föstudags og gátu sumir notað daginn vel til myndatöku, meðan aðrir komu ekki í náttstað fyrr en síðla kvölds.

Félagar dreifðust nokkuð um Snæfellsnesið á laugadag, en stærsti hluti hópsins hélt sig á innanverðu Snæfellsnesi og utan helstu ferðamannastaða. Fyrsta stopp flestra var Gerðuberg, sem eitt sinn var í alfararleið, en er orðið afsíðis ásamt kirkjustaðnum Rauðamel.

Þá var Landbrotalaug heimsótt og síðan farinn Heydalur til Skógarstrandar og Stykkishólms. Þá var farið að dreifast meira úr hópnum.

Farinn var hringurinn umhverfis Berserkjahraun og loks stoppað við Selvallafoss.

Einnig fór hluti hópsins um Kerlingarskarð og annar um Jökulháls, meðan enn aðrir keyrðu út fyrir og komu við á ýmsum þekktari stöðum.

Kvöldunum var varið til skemmtilegrar samveru, rætt um ljósmyndun, ráðslagað um tæki og eins og er aðalsmerki félagsins, fræddu félagar og fræddust hver af öðrum. Að sjálfsögðu voru fleiri gamanmál og almenn félagsgleði sveif yfir vötnum.
Á sunnudag rigndi duglega og fáir sem flýttu sér af stað, en meðan sumir héldu beint heim voru ótrúlega margir sem hittust við Hraunfossa, án þess að það væru endilega samantekin ráð.

Þá var hópnum boðið í kaffi í Reykholti á sveitasetur félaga Einars Vals. Þar voru töfraðar fram vöfflur sem gerð voru góð skil ásamt hjónabandssælu systranna Jóhönnu og Hönnu. Nú var komin sól og einhverjir skutu á fallegu haustlitina á staðnum áður en tekin var stefnan heim á leið.
Almennt var gerður góður rómur að ferðinni og flestir fundu einhverja bletti sem þeir höfðu ekki séð áður, eða alla vega ekki myndað mjög lengi. Ferðanefnd þakkar ferðafélögunum fyrir góða, skemmtilega og fræðandi samveru.
Anna Soffía Óskarsdóttir