Nú þegar haustið nálgast tekur náttúran á sig einstakan blæ þar sem sterkir litir í gróðrinum taka yfir. Sólarupprás og sólsetur eru á skikkanlegum tíma og ekki nauðsynlegt að rífa sig upp fyrir allar aldir eða vaka fram á nótt til þess að komast í fallega birtu.
Hér er farið yfir nokkur atriði sem vonandi geta nýst við að undirbúa haustlitaljósmyndaferðina sem best og kveikt einhverjar hugmyndir.
Í raun koma allir staðir þar sem eru runnar og tré til greina fyrir haustlitamyndatöku og hér í nágrenni höfuðborgarsvæðisins má nefna:
- Heiðmörk
- Þingvelli
- Borgarfjörð
- Hvalfjörð
- Þjórsárdal
Að auki er oft fallegt um að litast um í gömlum almenningsgörðum og kirkjugörðum innan borgarmarkanna. Þar má m.a. nefna Hólavallakirkjugarð, Öskjuhlíð, Guðmundarlund, Hellisgerði, Hlíðargarð, Elliðaárdal og Fossvogsdal.
1. Viðfangsefni
Líkt og í allri ljósmyndun er gott viðmið að hafa a.m.k. eitt skýrt viðfangsefni á myndinni, eitthvað sem augað getur leitað til og hvílt á.
Á haustin er kjörið að pæla í hlutverki lita í myndbyggingu og leika sér með að raða þeim inn á myndina þannig að þeir styrki myndbygginguna.
Það getur t.d. virkað vel að nota litina til að einangra viðfangsefnið okkar. Ef ríkjandi litur í gróðurþekju er á appelsínugula eða gula rófinu getur verið sterkt að nota bláan lit (andstæður litur á litahjólinu) til þess að láta viðfangefnið skera sig frá.
Prófaðu líka að nota sterka liti, úr fókus, ýmist í forgrunni eða bakgrunni til þess að ramma inn viðfangsefnið og stundum getur fengist mildara yfirbragð með því að nota hliðstæða liti.
2. Birta – Tími dags
Gullna stundin, rétt eftir sólarupprás og fyrir sólsetur, getur ýkt upp appelsínugulan blæ og gefið myndunum enn litríkari blæ en ef við erum úti að mynda um miðjan dag þegar sólin er hæst á lofti.
Þegar sólin er lágt á lofti getur hún baklýst laufblöð og þá er líkt og þau glói. Þá getur verið gaman að leika sér með að hafa þau sem aðalatriði, eða nota þau sem bjartan, litríkan bakgrunn og þá úr fókus.
3. Veðurskilyrði
Litirnir verða einna dýpstir þegar gróðurinn er rakur. Það er þess vegna góð hugmynd að fara út eftir rigningu eða snemma dags á meðan döggin er enn á gróðrinum.
Á lygnum haustdögum er stundum þoka eða mistur fyrst á morgnana, og þá gjarnan í kringum vötn og ár. Það sama getur gerst á kvöldin þegar kalt loftið leggst yfir uppgufunina af vatninu. Þokan getur gefið mikla dulúð og hjálpað til við að einangra viðfangsefnið okkar.
Það má heldur ekki gleyma því að himininn og birtuskilyrðin geta verið mjög dramatísk rétt áður en haustlægð skellur á og ekki síður í kjölfar hennar, rétt um það leyti sem það byrjar að lægja og létta til.
Þá myndast oft göt í skýjahuluna sem varpa ljósgeislum á viðfangsefnið okkar en allt í kring geta verið dramatísk ský sem búa til áhugaverðan bakgrunn.
4. Linsur
Val á linsu er auðvitað alltaf bundið smekk hvers og eins. Víðar linsur (16-35 mm) eru mjög vinsælar í landslagsmyndatöku og þær geta virkað vel í að fanga heildaryfirbragð landslagsins í haustlitunum.
Þrengri linsur og aðdráttarlinsur (50-200mm t.d.) geta hins vegar hjálpað okkur við að einangra stakt viðfangsefni og gefa því aukið vægi. Þetta getur verið laufblað, eitt stakt tré eða litríkir runnar í gráu klettabelti og taka meiri abstrakt æfingar:
5. Filterar
Polarizer getur verið mjög gagnlegur þegar verið er að mynda rakan gróður. Filterinn tekur mesta gljáann af og getur þannig dýpkað litamettunina í gróðrinum.
ND grad filter getur hjálpað til við að dekkja himininn. Ef við erum með rennandi vatn getur ND filter hjálpað til við að fá silkiáferð á vatnið sem getur gefið myndinni fallegan blæ.
Sjá fróðlegt og skemmtilegt myndband um filtera með því að smella hér.
6. Speglun
Það rignir gjarnan mikið á haustin og þá geta orðið til pollar og litlir vatnsfleti sem bjóða upp á skemmtilega speglun þar sem symmetría og endurtekning í myndbyggingu geta styrkt myndbygginguna.
Einmana lauf fljótandi í vatni getur líka verið áhugavert og allt að því ljóðrænt viðfangsefni.
7. Macro
Það er einhver einstök stemming sem fylgir haustlitunum og oft má finna agnarlitla vatnsdropa á laufblöðum og ef ljósið fellur beint á dropana verður stundum til ljósbrot sem er mjög fallegt. Á haustin eru líka komin ber og t.d. geta reyniber komið vel út í macro á móti grænum lit sem er mögulega ennþá í laufinu.
Þá getur verið gott að grípa til macro-linsu og reyna að fanga þessa stemmingu og raula þá jafnvel þessa línu úr Lofsögnum á meðan: Eitt eilífðar smáblóm, með titrandi tár…
Góða skemmtun í haustlitunum og verið dugleg að deila afrakstrinum með okkur hinum á spjallinu okkar!